Breivik fer fram á reynslulausn

Anders Behring Breivik sést hér umkringdur laganna vörðum í Skien-fangelsinu …
Anders Behring Breivik sést hér umkringdur laganna vörðum í Skien-fangelsinu þar sem hann hefur setið á bak við lás og slá undanfarinn áratug. AFP

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik heilsaði að sið nasista og hélt á spjaldi með rasískum skilaboðum er hann fór í dag fram á reynslulausn úr fangelsi. Litlar líkur eru taldar á því að honum verði sleppt úr haldi en rúmur áratugur er nú liðinn frá voðaverkunum sem hann framdi í Noregi. 

Breivik, sem er 42 ára gamall, hefur setið á bak við lás og slá í Skien-fangelsinu í Noregi. Hann mætti í dómsal héraðsdóms í Telemark þar sem fjallað verður um reynslulausnina næstu þrjá daga. 

Ættingjar þeirra sem féllu fyrir hendi Breivik óttast að þinghaldið verði tækifæri fyrir Breivik til að koma sínum pólitísku skoðunum á framfæri, en sýnt verður beint frá þinghaldinu. Ættingjarnir hafa kallað eftir því að Breivik fái ekki þessa athygli sem hann sjálfur óskar eftir. 

Breivik var dæmdur í 21 árs „forvaring“ árið 2012 fyrir að hafa myrt 77 í skipulögðum árásum. Það úrræði er ólíkt hefðbundnum refsidómi að því leyti að hægt verður að framlengja dóminn ótímabundið svo lengi sem dómarar telji samfélaginu enn stafa ógn af honum.

Dómurinn yfir Breivik var þá þyngsti dómur sem hefur fallið í sögu Noregs. Í kjölfar hryðjuverkanna gerði norska þingið lagabreytingar sem heimila þyngri dóma. 

Fram kemur í umfjöllun AFP, að Breivik hafi þurft að afplána að minnsta kosti 10 ára dóm í fangelsi áður en hann gæti óskað eftir reynslulausn. 

Þann 22. júlí 2011 myrti Breivik átta þegar hann sprengdi sprengju sem var um borð í flutningabíl skammt frá skrifstofum norska ríkisins í Ósló. Þá skaut hann 69 til bana, mestmegnis ungmenni í sumarbúðum ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins, á eyjunni Útey. 

Breivik sagðist hafa skotið þau til bana af því að þau aðhylltust alþjóðahyggju. 

Fjöldamorðin árið 2011 voru þau mannskæðustu í Noregi frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka