Að minnsta kosti 26 létu lífið í gær þegar jarðskjálfti, 5,3 að stærð, reið yfir hið afskekkta Badghis-hérað í Afganistan. Fjöldi húsa skemmdist en umfangsmikil leit stendur nú yfir að eftirlifendum.
„Jarðskjáltinn olli miklum skemmdum á húsum, um sjö hundrað til þúsund hús hafa eyðilagst,“ segir Baz Mohammad Sarwary, talsmaður héraðsins, í myndskeiði.
„Það er möguleiki að tala látinna gæti hækkað,“ bætir hann við.
Mörg fórnarlömb létu lífið þegar þök húsa féllu saman.
Jarðskjálftinn hafði einnig áhrif á Muqr-hérað en tölur yfir fjölda látinna eða særðra liggja enn ekki fyrir.
Myndskeið ganga nú á samfélagsmiðlum þar sem sjá má íbúa svæðisins, þar á meðal börn, leita í rústum húsa sinna að eigum sínum og nauðsynjum.
Inamullah Samangani, talsmaður yfirvalda talíbana, sagði viðbragðsaðila á vettvangi vera að leita að eftirlifendum og aðstoða við að flytja særða á spítala.
Teymi á vegum talíbana hefur einnig komið til að aðstoða.
Mikil krísa ríkir nú þegar í Afganistan sökum hungursneyðar en mikill þurrkur hefur verið í landinu. Stöðva þurfti mannúðaraðstoð til landsins á vegum ýmissa landa í kjölfar valdayfirtöku talíbana. Bætti það stöðuna ekki.