Tilraunir Evrópusambandsins til þess að koma á almennum lágmarksskatti á fjölþjóðleg stórfyrirtæki innan landamæra sambandsins urðu að engu í dag vegna mótstöðu Póllands og Ungverjalands.
Mótstaða ríkjanna tveggja er Frökkum ansi þungbær, sem lögðu mikla áherslu á að ná málinu í gegn í forsetatíð sinni í Evrópuráðinu.
Markmið Frakka var að gera OECD-samþykkt um lágmarksskattinn að lögum innan Evrópusambandsins, sem yrði þannig fyrsta ríkjasambandið til slíks. Samþykktin gerir ráð fyrir að 15% skattur að lágmarki verði settur á tekjur fjölþjóðlegra stórfyrirtækja.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slær í brýnu milli Pólverja, Ungverja og annarra aðildarríkja í Evrópusambandinu. Andstaða við Evrópusambandið er ríkjandi í Póllandi og Ungverjalandi og leiðtogar ríkjanna beggja leggja sig gjarnan alla fram við að leggja stein í götu sambandsins.
Lágmarksskatturinn er svo bara einn angi OECD-samþykktarinnar sem málið snýst um. Andstaða Pólverja og Ungverja snýst aðallega um hinn angann sem hverfist um flókna skammheimtu í þeim löndum sem tekjur stórfyrirtækja verða til. Ríkin tvö vilja meina að verið sé að draga úr samkeppnishæfni með fyrirhuguðum lögum.