Rabbíni bænahúss gyðinga í Texas í Bandaríkjunum, sem var einn af þeim sem teknir voru sem gíslar á laugardag, henti stól í átt að byssumanninum í þeirri viðleitni að flýja undan honum. Í kjölfarið komst hann út ásamt tveimur öðrum gíslum, án þess að árásarmaðurinn hleypti af skotum. Þá höfðu þeir verið í gíslingu í rúmar tíu klukkustundir.
Árásarmaðurinn hét Malik Faisal Akram og var breskur ríkisborgari. Hann var skotinn til bana af lögreglu. Bróðir Akrams hefur beðist afsökunar á ódæðinu og sagt að bróðir hans hafi þjáðst af andlegum veikindum. Markmið Akrams með gíslatökunni var að pakistönsk taugavísindakona, sem afplánar nú 86 ára fangelsisdóm, yrði frelsuð úr bandarísku fangelsi.
Konan var dæmd í 86 ára fangelsi árið 2010 fyrir að hafa reynt að verða bandarískum hermönnum að bana meðan hún var í haldi þeirra í Afganistan.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur lýst gíslatökunni sem hryðjuverki.
Árásarmaðurinn hafði villt á sér heimildir þegar hann kom inn í bænahúsið. Hann sagðist vera heimilislaus og að leita skjóls. Honum var hleypt inn og rabbíninn hitaði handa honum te.
Rabbíninn heitir Charlie Cytron Walker. Hann sagði í samtali við CBS að hann hefði legið á bæn um klukkan ellefu á laugardagsmorgun þegar hann heyrði smell sem reyndist vera hljóð úr byssu árásarmannsins. Skömmu síðar hafði hann tekið Walker og þrjá aðra í gíslingu.
Walker sagði við CBS að þetta hefði verið hræðileg reynsla. Þá hefðu þeir gíslarnir verið mjög hræddir, sérstaklega undir lokin.
„Okkur stóð ógn af árásarmanninum allan tímann en sem betur fer særðist enginn okkar líkamlega.“
Árásarmaðurinn sleppti einum gísl eftir sex klukkustundir. Þá voru Walker og tveir aðrir eftir inni.
„Þegar ég sá tækifæri, þegar hann var ekki í góðri aðstöðu, sá ég til þess að herramennirnir væru tilbúnir í að fara með mér,“ sagði Walker. „Útgangurinn var ekkert mjög langt í burtu. Ég sagði þeim að fara af stað, ég henti stól í átt að byssumanninum og fikraði mig að dyrunum.“
Walker sagði að það að fara aftur í bænahúsið myndi ekki verða þeim auðvelt en það væri mikilvægt.