Breivik jafn hættulegur og fyrir áratug

Randi Rosenqvist í dómssal.
Randi Rosenqvist í dómssal. AFP

Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik, sem nú fer fram á reynslulausn rúmum áratugi eftir að hann framdi fjöldamorð í Noregi, er jafn hættulegur samfélaginu og hann var þegar hann framdi voðaverkið. Þetta sagði geðlæknir í dómssal í dag.

„Hættan á frekari ofbeldisverkum af hans hálfu hefur ekki breyst síðan á árunum 2012 og 2013 þegar ég gerði mitt fyrsta mat á Breivik,“ sagði geðlæknirinn, Randi Rosenqvist. Hún hefur metið geðrænt ástand Breiviks nokkrum sinnum síðan hann var dæmdur. 

Brei­vik var dæmd­ur í 21 árs „for­var­ing“ árið 2012 fyr­ir að hafa myrt 77 í skipu­lögðum árás­um. Það úrræði er ólíkt hefðbundn­um refsi­dómi að því leyti að hægt verður að fram­lengja dóm­inn ótíma­bundið svo lengi sem dóm­ar­ar telji sam­fé­lag­inu enn stafa ógn af hon­um.

Breivik hefur sagt að hann hafi fjarlægt sig frá ofbeldi og óski lausnar nú eftir að hafa afplánað stysta mögulega dóm sinn, 10 ár. 

Á fyrsta degi þinghaldsins í gær heilsaði Breivik að sið …
Á fyrsta degi þinghaldsins í gær heilsaði Breivik að sið nasista. AFP

Narsisískur og andfélagslegur

Breivik þjáist enn af andfélagslegum og narsisískum persónuleikaröskunum, að mati Rosenqvistar. 

Þann 22. júlí 2011 myrti Brei­vik átta þegar hann sprengdi sprengju sem var um borð í flutn­inga­bíl skammt frá skrif­stof­um norska rík­is­ins í Ósló. Þá skaut hann 69 til bana, mest­megn­is ung­menni í sum­ar­búðum ungliðahreyf­ing­ar Verka­manna­flokks­ins, á eyj­unni Útey. 

Vitnisburður Rosenqvistar er talinn afar mikilvægur þáttur í því hvort Breivik fái reynslulausn eða ekki. Flestir sérfræðingar telja afar ólíklegt að honum verði sleppt. 

Breivik sat rólegur við þinghaldið í dag en hristi hausinn nokkrum sinnum á meðan Rosenqvist talaði. 

Sagðist ekki geta tryggt að hann myndi ekki brjóta af sér aftur

Breivik kvartaði yfir því við dóminn að farið væri með hann eins og dýr innan veggja fangelsisins og að hann fengi ekki nóg samband við umheiminn. 

Staðreyndin er sú að Breivik hefur til umráða þrjá fangaklefa, aðgang að sjónvarpi með DVD-spilara og ritvél. 

„Einhver sem hefur verið dæmdur fyrir glæp getur aldrei tryggt að hann muni ekki fremja slíkt aftur. Það veltur bara á samfélaginu og því hvort það gefi honum annað tækifæri eða ekki,“ sagði Breivik við dómara í dag þegar hann var beðinn um að sanna að hann væri ekki lengur ofbeldisfullur.

Beiðni hans um reynslulausn hefur komið fjölskyldum fórnarlambanna og eftirlifenda í uppnám. Hafa þær lýst áhyggjum sínum af því að hann myndi nota þinghaldið til þess að koma á framfæri málstað sínum. Sá ótti fjölskyldnanna varð að veruleika þegar Breivik heilsaði að nasískum sið og hélt langa ræðu um yfirburði hvítra og þjóðernissósíalisma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka