Krefjast vitnisburðar Giulianis

Rudy Giuliani hefur verið kallaður fyrir nefndina.
Rudy Giuliani hefur verið kallaður fyrir nefndina. AFP

Rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings, sem hefur það verkefni að rannsaka árásina á þinghúsið fyrir um ári síðan, hefur stefnt Rudy Giuliani, lögfræðingi Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta, fyrir nefndina. Nefndin hefur einnig krafist þess að þrír aðrir ráðgjafar Trumps – lögfræðingarnir Jenna Ellis og Sidney Powell, og stjórnmálaráðgjafinn Boris Epshteyn – komi fyrir nefndina þann 8. febrúar n.k., beri þar vitnisburð og skili inn ákveðnum skjölum. 

Eftir kosningarnar í fyrra ferðaðist Giuliani um Bandaríkin og hélt því fram að Trump hefði sigrað í kosningunum en ekki Joe Biden. 

Árás stuðningsmanna Trumps á þinghúsið þann 6. janúar í fyrra var innblásin af þessum fölsku yfirlýsingum Trumps, Giulianis, Ellis, Powells, Epshteyn og fleira fólks. 

Ekki vitað hvort fjórmenningarnir hyggist mæta

Nefndin segir Ellis hafa undirbúið minnisblöð sem í stóð að löglega væri hægt að snúa niðurstöðum kosninganna við. Þá segir nefndin Epshteyn hafa rætt við Trump um aðferðir til þess að hægja á því að Biden fengi að taka við forsetaembættinu. Powell sagði að lögsóknir myndu afhjúpa verulegt magn sannana um að kosningunum hefði verið stolið. Það gerðist aldrei. 

Benni Thompson, demókratinn sem leiðir nefndina, sagði í yfirlýsingu að allt fólkið hefði komið á framfæri „órökstuddum tilgátum um kosningasvindl, reynt að breyta niðurstöðum kosninganna eða var í sambandi við forsetann fyrrverandi um tilraunir til þess að hætta talningu atkvæða.“

Enn er óljóst hvort fjórmenningarnir muni mæta fyrir nefndina. Ef þau neita að mæta gætu þau staðið frammi fyrir lögsókn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert