Hart var sótt að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu í dag þar sem boð sem haldin voru í Downingsstræti í kórónuveirufaraldrinum voru til umræðu. Johnson sagði í viðtali í gær að hann hafi ekki vitað af því að boð brytu gegn reglum sem voru í gildi.
Johnson hefur viðurkennt að hafa sótt veislu í Downingstæti þann 20. maí árið 2020 en hann sagðist hafa haldið að hún tengdist starfinu.
Sir Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins og stjórnarandstöðunnar í Bretlandi, sagði að skýringar forsætisráðherrans á veisluhöldunum í Downingstræti yrðu sífellt furðulegri.
Ef Johnson segði satt þá þýddi það, samkvæmt Starmer, að starsfólk í forsætisráðuneytinu væri að ljúga og Johnson einum hafi verið sagt að viðburðurinn tengdist starfinu.
„Áttar hann sig á því hversu fáránlega það hljómar?“ spurði Starmer í þingsal.
„Ég hef sagt mitt um viðburðina í Downingstræti,“ svaraði Johnson.
Hann lyfti í framhaldinu mynd af Starmer, drekkandi bjór á skrifstofu sinni á tímum útgöngubanns í Bretlandi:
„Hann gæti kannski sagt okkur frá því hvað var í gangi hér?“
„Fólk í ríkisstjórninni hefur unnið hörðum höndum í heimsfaraldrinum til að vernda breskan almenning,“ sagði Johnson.
Starmer sagði að þessi viðbrögð Johnson, að lyfta mynd af honum haldandi á bjór, sýni að forsætisráðherrann sé í meiri vanda við að halda starfi sínu en hann hélt.
Hann spyr enn fremur hvort forsætisráðherrar sem hafi afvegaleitt þingið eigi að segja af sér. Johnson svarar því til að spurningum Starmer verði svarað í rannsókn Sue Gray en hún fer með rannsókn á veislum í Downingstræti árið 2020.
Starmer bendir á mynd af Elísabetu drottningu þar sem hún situr ein í jarðarför Fillipussar drottningamanns á síðasta ári en kvöldið áður var veisla í Downingstræti.
„Hún fylgdi reglunum.“