Segir ríkisstjórnina hóta eigin þingmönnum

Johnson segist ekki hafa verið varaður við því að veisluhöldin …
Johnson segist ekki hafa verið varaður við því að veisluhöldin brytu í bága við lög. AFP

William Wragg, þingmaður Íhaldsflokksins, segir ríkisstjórnina reyna að kúga og múta þeim þingmönnum flokksins sem kallað hafa eftir afsögn Boris Johnson forsætisráðherra, í þeirri von um að þeir falli frá áformum sínum. BBC greinir frá. 

Johnson hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að hafa sótt hundrað manna veislu í Downingstræti 10 þegar strangt útgöngubann var í gildi í Bretlandi vegna kórónuveirunnar. Hefur hann borið fyrir sig að hann hafi ekki verið varaður við því að veisluhöldin brytu gegn gildandi reglum. Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Johnson, segist hins vegar hafa varað hann við.

Segja ekkert benda til ásakanirnar séu réttar

Sífellt háværari raddir heyrast innan úr Íhaldsflokknum um að forsætisráðherrann eigi að segja af sér vegna málsins. Þar á meðal eru háttsettir þingmenn.

Wragg er einn þeirra sem kallað hefur eftir afsögn Johnson. Hann segir þrýst hafa verið á þingmenn sem kallað hafa eftir afsögn og þeim ógnað af ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þeim hafi meðal annars verið hótað slæmri umfjöllun opinberlega.

Talsmaður forsætisáðherrans segir ekkert benda til að ásakanir Wragg eigi við rök að styðjast. Ef eitthvað komi í ljós sem styðji ásakanirnar, verði málið skoðað í þaula.

Hagi sér eins og mafíuforingi

Angela Rayner, varaformaður Verkamannaflokksins, segir það algjört hneyksli eigi ásakanirnar við rök að styðjast. Þá hefur Ed Davey, leiðtogi frjálslyndra demókrata, sagt að Johonson hagi sér meira í anda mafíuforingja en forsætisráðherra.

Sjálfur hefur Johnson beint því til þeirra sem vilja að hann segi af sér, að þeir skuli bíða niðurstöðu rannsóknar Sue Gray, sérstaks saksóknara, á sóttvarnabrotum í Downingstræti, áður en þeir dæmi hann frekar. Niðurstöðu rannsóknarinnar er að vænta í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka