Alþjóða Rauði krossinn hefur óskað eftir samtali við tölvuþrjóta sem komu höndum sínum yfir mikið magn viðkvæmra gagna, en talsmenn hreyfingarinnar segjast vera reiðubúnir að ræða beint og í trúnaði við þá sem stóðu á bak við tölvuárásina.
Tölvuþrjótarnir komust yfir gögn sem tengist rúmlega 515.000 manns í viðkvæmri stöðu, þar á meðal fólk sem hefur flúið átök og einstaklinga sem eru í haldi yfirvalda.
Fram kemur í umfjöllun AFP-fréttaveitunnar, að það sé ekki vitað hver eða hverjir stóðu á bak við árásina. Alþjóðlegi Rauði krossinn kallaði þó eftir því í dag að þeir myndu stíga fram.
Hreyfingin segir að gögnin sem hópurinn hefur undir höndum gætu skaðað marga einstaklinga sem eru í viðkvæmum hópi og biðla til þeirra af mannúðarástæðum að ræða við talsmenn hreyfingarinnar í trúnaði.
Tölvuþrjótarnir komust yfir gögn frá að minnsta kosti 60 landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans víða um heim.
Ekkert bendir til þess að gögnunum hafi verið lekið eða birt opinberlega á netinu.