Varnarmálaráðherrar Norðurlandanna hafa gefið frá sér sameiginlega yfirlýsingu kjölfar þeirrar alvarlegu stöðu sem komin er upp vegna hernaðaruppbyggingar Rússlands í og við Úkraínu.
Stuðningur ríkjanna við Úkraínu er áréttaður og er þar ákall um að Rússland dragi hersveitir sínar frá svæðinu.
Í yfirlýsingunni er einnig undirstrikað mikilvægi umleitana til að koma á samtali við Rússland um öryggismál í Evrópu, tvíhliða og á vettvangi þar til bærra alþjóðastofnana. Ríkin eru sammála um að það þurfi að vinna að friðsamlegri lausn.
Þetta var ákveðið á fjarfundi varnarmálaráðherranna sem fram fór í dag en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd.
„Það er grundvallaratriði fyrir frið og öryggi í Evrópu að ríki álfunnar virði alþjóðlegar skuldbindingar sínar, virði landamæri og lögsögu annarra ríkja og rétt þeirra til að ákvarða eigin framtíð. Við norrænu ríkin erum sammála um að sú staða sem upp er komin sé mjög alvarleg,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu á vef Stjórnarráðsins.