Sendinefnd talíbana lenti í Ósló í dag til þess að funda með vestrænum erindrekum og Afgönum. Að sögn talsmanns sendinefndarinnar er markmiðið að „umbreyta andrúmslofti stríðs“ í Afganistan.
Fjölmiðillinn Verdens Gang birti í dag myndskeið úr þotu sendinefndarinnar sem var þá á leið til Noregs. Nefndina skipa 15 talsmenn ríkisstjórnar talíbana.
Þar fer Amir Khan Mutaqqi, utanríkisráðherra, fremstur í flokki en þetta er fyrsti fundur talíbana með vestrænum ríkjum í Evrópu frá því að talíbanar tóku völdin í ríkinu.
Ekkert ríki hefur viðurkennt stjórn talíbana en þeir voru síðast við völd í landinu frá árinu 1996 og til 2001 þegar Bandaríkin gerðu innrás. Í kjölfar brotthvarfs Bandaríkjahers í fyrra tóku talíbanar aftur völdin í landinu í ágúst 2021.
„Íslamska emírstignin hefur komið til móts við þær kröfur sem hinn vestræni heimur hefur gert til okkar og við vonumst til þess að geta styrkt tengslin í gegnum samskipti við öll lönd. Þar á meðal evrópsk og vestræn ríki,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Zabihullah Mujahid talsmanni talíbana.
Fyrstu fundir hefjast á morgun en þá verður talað við borgaraleg samtök Afgana. Þar á meðal leiðtoga kvenréttindahópa og blaðamanna.
Á mánudag funda talíbanarnir með fulltrúum Bandríkjanna, Frakklands, Bretlands, Þýskalands, Ítalíu og Evrópusambandsins og svo á þriðjudag verður fundað með norskum embættismönnum.
Aðstæður fólks í Afganistan hafa snarversnað síðan talíbanar tóku við og áætlað er að 23 milljónir búi við hungur. Það eru um 55% af heildarfjölda íbúa. Sameinuðu þjóðirnar hafa sagst þurfa 4,4 milljarða Bandaríkjadala til þess að koma til móts við þessa stöðu.
Bandaríska ríkisstjórnin hefur fryst stórar sjóði í eigu seðlabanka Afganistan og mannúðaraðstoð í formi fégreiðslna var snarlega hætt eftir að talíbanarnir tóku völd.
Utanríkisráðherra Noregs, Anniken Huitfeldt, tók það sérstaklega fram í dag að viðræðurnar mætti ekki túlka sem viðurkenningu norska ríkisins á ríkisstjórn talíbana:
„Við þurfum að að tala við raunveruleg yfirvöld í landinu. Við getum ekki leyft stöðunni að versna sífellt svo úr verði verri mannúðarkrísa en er nú þegar orðin.“