Lögregla í Brussel, höfuðborg Belgíu, beitti táragasi og skaut vatni á mótmælendur sem komu saman á götum borgarinnar í dag til þess að mótmæla sóttvarnaaðgerðum. Á áttunda tug mótmælenda var handtekinn fyrir að kasta steinum og hlutum í átt að lögreglumönnum og fyrir skemmdir á eignum.
Lögreglan telur að um 50 þúsund manns hafi komið saman í Brussel í dag en mótmælin eru þau fjölmennustu í mótmælaröð sem staðið hefur yfir undanfarna mánuði.
Átök brutust út í grennd við höfuðstöðvar Evrópusambandsins og neyddist lögregla til að beita táragasi á mótmælendurna sem köstuðu steinum og kveiktu á púðurkerlingum. Lögregla þurfti seinna að fara í skjól fyrir mótmælendum á lestarstöð.
Þrír lögregluþjónar og tólf mótmælendur voru lagðir inn á sjúkrahús en enginn þeirra var í lífshættu.
„Tjáningarfrelsið er ein grunnstoða samfélagsins. Allir mega tjá skoðun sína. En samfélag okkar mun aldrei samþykkja ofbeldi, og þá sérstaklega ekki þegar það beinist að lögreglumönnum. Þau sem tóku þátt í aðgerðunum í dag verða sóttir til sakar,“ sagði Alexander De Croo forsætisráðherra Belgíu í tilkynningu í dag.
Borgarstjóri Brussel Philippe Close sagði á Twitter að dagurinn í dag hafi verið erfiður. „Ekkert réttlætir líkamsárásir sem beinast gegn lögreglumönnum okkar,“ sagði hann.
Í Belgíu hefur sóttvarnaraðgerðum verið mótmælt harðlega en metfjöldi smita hefur greinst í landinu undanfarnar vikur. Þar er Ómíkron afbrigðið ríkjandi.
Mótmælendur um alla Evrópu hafa verið hvattir til þess að koma til Belgíu til þess að mótmæla sóttvarnaaðgerðum í Evrópu og sjá mátti fána Póllands, Hollands, Frakklands og Rúmeníu í hópi mótmælenda í dag.
„Það sem hefur gerst frá árinu 2020 hefur opnað augu fólks fyrir spillingu,“ sagði Francesca Fanara, sem ferðaðist frá Lille í norður Frakklandi til þess að taka þátt í mótmælunum. „Ég er hingað komin til að mótmæla með öðrum,“ sagði hún.
Belgar hafa búið við strangar reglur undanfarnar vikur en þeim var aflétt fyrir skömmu. Á föstudag greindi De Croo frá því að veitingastaðir og barir mættu opna dyr sínar á ný, en næturklúbbar eru enn lokaðir.