Yfirréttur í London hefur samþykkt að veita Julian Assange, stofnanda Wikileaks, leyfi til að áfrýja til hæstaréttar fyrri dómi sem gaf heimild fyrir framsali hans til Bandaríkjanna. AFP-fréttastofan greinir frá.
Í janúar á síðasta ári komst undirréttur að þeirri niðurstöðu að Assange yrði ekki framseldur vegna andlegrar heilsu hans og mögulegrar sjálfsvígshættu. Í desember snéri yfirréttur hins vegar við þeim dómi og heimilaði framsal Assange til Bandaríkjanna.
Lögmenn Assange ákváðu að láta reyna á það lagaákvæði fyrir dómi að hann fengi heimild til að fara með málið fyrir hæstarétt á þeim forsendum að það varðaði almannahagsmuni. Dómurinn komst í dag að þeirri niðurstöðu að það skyldi heimilað.
Tekið er fram í niðurstöðu yfirréttar að dómarar í málinu séu ekki að gefa leyfi fyrir áfrýjun, heldur fær Assange leyfi til að óska eftir því að áfrýjun hans verði tekin fyrir í hæstarétti. Það er svo hæstaréttar að taka ákvörðun um framhaldið.
Assange gæti átt yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsisdóm í Bandaríkjunum, verði hann fundinn sekur af öllum átján ákæruliðunum á hendur honum.
Ákærurnar tengjast allar birtingu Wikileaks á um 500.000 leyniskjölum varðandi þátttöku Bandaríkjanna í stríðsátökunum í Afganistan og í Írak.