Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna, fordæmir harðlega valdarán hersins í Búrkína Fasó og hvetur valdaránsleiðtogana til að leggja niður vopn sín. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem gefin var út nú fyrir skömmu.
Forseti Burkina Faso var handtekinn í morgun af hermönnum, ásamt ráðherrum úr ríkisstjórn hans, degi eftir að hersveitir gerðu uppreisn í landinu.
Hermenn risu upp á þó nokkrum herstöðvum í vesturafríska ríkinu í gær og kröfðust þess að æðstu leiðtogar hersins yrðu reknir og að meira fjármagni yrði veitt í baráttuna gegn framgangi íslamskra vígamanna sem hófst árið 2015.
Í yfirlýsingu Guterres segist hann fordæma allar tilraunir til að yfirtaka ríkisstjórn með vopnavaldi og hvatti herforingja enn fremur til að tryggja vernd og líkamleg heillindi forseta þjóðarinnar, Kabore.
Forsetinn Roch Marc Christian Kabore hefur verið við völd í Burkina Faso síðan 2015. Þegar hann náði endurkjöri árið 2020 hét hann því að setja baráttuna gegn vígamönnunum í forgang.
Hann hefur sætt aukinni gagnrýni á meðal almennings fyrir að takast ekki að stöðva blóðsúthellingarnar í landinu.