Miklum áfangasigri náð í máli Assange

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks. AFP

Það að yfirréttur í London hafi samþykkt að veita Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, leyfi til að óska eftir því að áfrýjun hans á fyrri dómi, sem gaf heim­ild fyr­ir framsali hans til Banda­ríkj­anna, verði tekin fyrir í hæstarétti er lagalega séð mikill áfangasigur. Þetta segir Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, í samtali við mbl.is.

Fullnaðarsigur þó langt frá því að vera í höfn

Í janú­ar á síðasta ári komst und­ir­rétt­ur að þeirri niður­stöðu að Assange yrði ekki fram­seld­ur vegna and­legr­ar heilsu hans og mögu­legr­ar sjálfs­vígs­hættu. Í des­em­ber snéri yf­ir­rétt­ur þeim dómi hins veg­ar við og heim­ilaði framsal Assange til Banda­ríkj­anna.

Lög­menn Assange ákváðu þá að láta reyna á það laga­ákvæði fyr­ir dómi að hann fengi heim­ild til að fara með málið fyr­ir hæsta­rétt á þeim for­send­um að það varðaði al­manna­hags­muni. Dóm­ur­inn komst í gær að þeirri niður­stöðu að það skyldi heim­ilað.

Þótt niðurstaðan blási örlítilli von í brjóst þeirra sem hafa unnið hvað harðast að því að dómur Assange verði felldur niður og að honum verð sleppt lausum úr fangelsi er sigurinn langt frá því að vera í höfn, að sögn Kristins.

„Það er engin trygging fyrir því að hæstiréttur taki málið til skoðunar þótt töluverðar líkur séu á því miðað við úrskurðinn frá því í gær. Það getur tekið marga mánuði fyrir þá hjá hæstarrétti að komast að niðurstöðu um það hvort þeir vilji taka þetta mál fyrir. Þannig það er ekkert sem liggur fyrir í þessu. Það er ekkert haldfast.“

Kristinn segir mál Assange aðför að blaðamennsku í heiminum.
Kristinn segir mál Assange aðför að blaðamennsku í heiminum. AFP

Ákvörðun yfirréttar séu til þess fallnar að tefja 

Þá segir hann nýjustu vendingar í málinu vera til þess fallnar að tefja framgang þess enn frekar. Til hafi staðið að skjóta máli Assange til Mannréttindadómstóls Evrópu en til þess að það sé hægt þurfi að tæma öll lagaleg úrræði innan ríkisins fyrst.

„Við erum því kannski að horfa til þess að hæstiréttur taki ákvörðun um hvort þeir skoði málið eftir þrjá til fjóra mánuði. Svo ættu þeir eftir að finna tíma til málflutnings sem gæti ekki orðið fyrr en þremur til fjórum mánuðum eftir það og þá er sjálfur málflutningurinn eftir. Svo gæti tekið dóminn nokkra mánuði að komast að niðurstöðu. Ef og þegar hæstirréttur ákveður að taka málið fyrir getum við kannski búist við því að fá niðurstöðu einhvern tímann í kringum næstu áramót.“

Spurður segist vera Kristinn hóflega bjartsýnn á að hæstiréttur taki málið fyrir. Að fenginni reynslu af breska réttarkerfinu hafi hann þó ekki hafa neinar sérstakar væntingar til þess að úrskurður hæstaréttar verði Assange og hans fólki í hag.

„Ég er búinn að læra það af dapurri reynslu hér í réttarsölum í Bretlandi að það er ekki á neitt að stóla. Það sem hefur verið opinberað í þessu öllu þessu lagaskaki er það að þetta er ekki lagatæknilegt mál. Þetta er pólítískt mál og það er sífellt að verða ljósara.“

Mynd af Julian Assange í Melbourne í Ástralíu.
Mynd af Julian Assange í Melbourne í Ástralíu. AFP

Hroðalegt fordæmi fyrir önnur ríki heimsins

Það sé svo ástæðan fyrir því að sífellt fleiri mannréttindasamtök leggist á sveig með Julian og hvetji til þess að þessum hráskinnaleik ljúki, eins og Kristinn orðar það.

„Þá sjá líka allir hverskonar hættuspil er þarna á ferðinni í stærra samhengi gagnvart blaðamennsku í heiminum. Að eitt ríki skuli geta tekið sér það vald að fara fram á framsal á ríkisborgara þriðja lands, fyrir verk sem hann vinnur utan landsteina viðkomandi ríkis, og ætli síðan að dæma á grundvelli einhverrar njósnarlöggjafar sem er yfir hundrað ára gömul og reyna að leggja að jöfnu blaðamennsku og njósnir.“

Kristinn segir mál Assange hroðalegt fordæmi og líklegast mestu aðför að frjálsri blaðamennsku sem sést hefur í vestrænum ríkjum á síðustu áratugum.

„Mergur málsins sá að Assange var dreginn út úr sendirráði Ekvadors, eftir stjórnarskipti í Ekvador 19. apríl árið 2019. Nú er komið árið 2022 og hann er búinn að sitja saklaus í einu mesta öryggisfangelsi Bretlands í yfir þúsund daga, fyrir það eitt að hafa birt sannar upplýsingar sem enginn efast um að séu sannar.

Það að horfa upp á þetta ætti að gefa fólki í vestrænum ríkjum hroll. Þetta er nákvæmlega það sama sem verið er að fordæma önnur ríki með vafasamari lýðræðisorðpor fyrir að gera. Þetta er hroðaleg staðreynd.“

Málið sé nú þegar farið að valda skaða, ekki síst á því orðspori sem vestræn ríki hafa undir forystu Breta og Bandaríkjamanna í öðrum löndum, að sögn Kristins. Margt sé því undir í málinu og þess vegna verði því að linna.

„Þetta mun ekki taka enda fyrr en þrýstingur eykst á Bandaríkjastjórn um að láta þetta mál niður falla og sleppa Assange lausum. Það er eina niðurstaðan sem getur fengið menn til þess að anda aðeins léttar og hrinda aðför að blaðamennsku í heiminum.“

Julian Assange, hefur setið í einu mesta öryggisfangelsi Bretlands í …
Julian Assange, hefur setið í einu mesta öryggisfangelsi Bretlands í um þúsund daga. AFP

Með morðingjum og hryðjuverkamönnum

Inntur eftir því segist Kristinn vera í reglulegu sambandi við Assange. Það sé þó mikið til óbeint enda fái Assange takmarkaðan símatíma í fangelsinu sem hann noti mest til þess að tala við fjölskyldu sína og lögmenn.

„Hann tórir. Ég veit eiginlega ekki hvernig er hægt að orða það öðruvísi. Menn vita það alveg hvaða áhrif það hefur að vera gæsluvarðhaldsfangi í þennan óratíma, í þessari óvissu og það í nöturlegasta öryggisfangelsi Bretlands innan um morðingja og hryðjuverkamenn.“

Þótt fangelsisvistin hafi vissulega tekið sinn toll á Assange, bæði andlega og líkamlega, sé hann baráttumaður með mikla réttlætissýn, að sögn Kristins.

„Sá sem hefur réttlætissýn er í betri stöðu til þess að berjast en þetta er að verða ansi langur slagur eftir því sem á hann er dregið. Það gefur Assange þó byr að æ fleiri séu að átta sig á þessu og láta sig málið varða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert