Boris treður pólitískan marvaða í dag

Boris Johnson á erfiðan dag í vændum.
Boris Johnson á erfiðan dag í vændum. AFP

Vendipunkt­ur gæti orðið á stjórn­mála­ferli Bor­is John­son, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, í dag þar sem hann mun þurfa að svara óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­um þing­manna í breska þing­inu á há­degi í dag um par­týstand í for­sæt­is­ráðuneyt­inu á síðasta ári, þegar Bret­ar sættu út­göngu­banni.

Þar fyr­ir utan er bú­ist við því að skýrsla Sue Gray, sem falið var að rann­saka meint brot John­son og starfs­manna for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins á sótt­varna­lög­um, verði birt á allra næstu dög­um og jafn­vel í dag.

Í gær til­kynnti svo lög­regl­an í Lund­ún­um að hún myndi hefja eig­in rann­sókn á meint­um brot­um, en embættið hef­ur sætt harðri gagn­rýni fyr­ir að hafa ekki þegar hafið rann­sókn á mál­inu.

Nýr dag­ur, ný partý, nýj­ar ásak­an­ir

Í frétt BBC um málið seg­ir að John­son hafi beðist af­sök­un­ar á því að hafa verið viðstadd­ur gleðskap í Down­ing-stræti fyr­ir tveim­ur árum þegar Bret­ar sættu hörðum sam­komutak­mörk­un­um. Gest­gjaf­ar báðu starfs­menn um að mæta með eigið áfengi í teitið en þrátt fyr­ir það seg­ist John­son hafa haldið að um vinnu­tengd­an fund væri að ræða.

Nýj­ustu ásak­an­irn­ar á hend­ur John­son snú­ast svo um af­mæl­is­fögnuð sem var hald­inn hon­um til heiðurs í júní í fyrra. Bú­ast má við að þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar í Bretlandi muni tæta John­son í sig í þing­inu í dag.

Hrárri og bein­skeittri skýrslu beðið í of­væni

Laura Ku­enss­berg, frétta­skýr­andi BBC, hef­ur eft­ir heim­ild­um sín­um að Sue Gray vilji birta skýrslu sína um málið bráðlega og án grein­ar­gerðar eða niður­lags um hvað hún haldi að hafi farið fram í Down­ing-stræti. Þannig er hún sögð vilja stuðla að því að Bret­ar geti dregið eig­in álykt­an­ir af því fjalli sönn­un­ar­gagna sem Gray áskotnaðist við rann­sókn sína.

Marg­ir bíða niðurstaðna rann­sókn­ar­inn­ar í of­væni og þeir sam­flokks­menn John­son í íhalds­flokkn­um, sem ekki hafa þegar kallað eft­ir af­sögn hans, hafa flest­ir kallað eft­ir því að skýrsl­unn­ar sé beðið áður en orð verða lát­in falla um póli­tíska framtíð John­sons.

All­nokkr­ir þing­menn Íhalds­flokks­ins hafa skrifað und­ir van­trausts­yf­ir­lýs­ingu á hend­ur John­son en sam­kvæmt lög­um flokks­ins verða 54 þing­menn að gera slíkt til þess að kjósa megi um til­lög­una form­lega.

Marg­ir þing­menn bíða þess nú að sjá skýrslu Sue Gray áður en þeir ákveða hvort þeir vilji skrifa und­ir van­traust­stil­lögu eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert