Boris treður pólitískan marvaða í dag

Boris Johnson á erfiðan dag í vændum.
Boris Johnson á erfiðan dag í vændum. AFP

Vendipunktur gæti orðið á stjórnmálaferli Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í dag þar sem hann mun þurfa að svara óundirbúnum fyrirspurnum þingmanna í breska þinginu á hádegi í dag um partýstand í forsætisráðuneytinu á síðasta ári, þegar Bretar sættu útgöngubanni.

Þar fyrir utan er búist við því að skýrsla Sue Gray, sem falið var að rannsaka meint brot Johnson og starfsmanna forsætisráðuneytisins á sóttvarnalögum, verði birt á allra næstu dögum og jafnvel í dag.

Í gær tilkynnti svo lögreglan í Lundúnum að hún myndi hefja eigin rannsókn á meintum brotum, en embættið hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að hafa ekki þegar hafið rannsókn á málinu.

Nýr dagur, ný partý, nýjar ásakanir

Í frétt BBC um málið segir að Johnson hafi beðist afsökunar á því að hafa verið viðstaddur gleðskap í Downing-stræti fyrir tveimur árum þegar Bretar sættu hörðum samkomutakmörkunum. Gestgjafar báðu starfsmenn um að mæta með eigið áfengi í teitið en þrátt fyrir það segist Johnson hafa haldið að um vinnutengdan fund væri að ræða.

Nýjustu ásakanirnar á hendur Johnson snúast svo um afmælisfögnuð sem var haldinn honum til heiðurs í júní í fyrra. Búast má við að þingmenn stjórnarandstöðunnar í Bretlandi muni tæta Johnson í sig í þinginu í dag.

Hrárri og beinskeittri skýrslu beðið í ofvæni

Laura Kuenssberg, fréttaskýrandi BBC, hefur eftir heimildum sínum að Sue Gray vilji birta skýrslu sína um málið bráðlega og án greinargerðar eða niðurlags um hvað hún haldi að hafi farið fram í Downing-stræti. Þannig er hún sögð vilja stuðla að því að Bretar geti dregið eigin ályktanir af því fjalli sönnunargagna sem Gray áskotnaðist við rannsókn sína.

Margir bíða niðurstaðna rannsóknarinnar í ofvæni og þeir samflokksmenn Johnson í íhaldsflokknum, sem ekki hafa þegar kallað eftir afsögn hans, hafa flestir kallað eftir því að skýrslunnar sé beðið áður en orð verða látin falla um pólitíska framtíð Johnsons.

Allnokkrir þingmenn Íhaldsflokksins hafa skrifað undir vantraustsyfirlýsingu á hendur Johnson en samkvæmt lögum flokksins verða 54 þingmenn að gera slíkt til þess að kjósa megi um tillöguna formlega.

Margir þingmenn bíða þess nú að sjá skýrslu Sue Gray áður en þeir ákveða hvort þeir vilji skrifa undir vantrauststillögu eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka