Danir ætla líklega að aflétta öllu á mánudag

Mette Frederik­sen, for­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur.
Mette Frederik­sen, for­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur. AFP

Frá og með mánudegi verður mögulega öllum sóttvarnatakmörkunum í Danmörku aflétt að því er segir í fréttum þaðan. Mette Frederiksen forsætisráðherra er sögð munu tilkynna þetta síðar í dag.

Í frétt danska ríkisútvarpsins segir að Frederiksen hafi fengið tillögur frá dönskum sóttvarnayfirvöldum sem kváðu á um allsherjarafléttingar vegna þess að kórónuveiran veldur ekki lengur samfélagsvá. Á blaðamannafundi síðar í dag er gert ráð fyrir að Frederiksen tilkynni um að farið verði eftir tillögunum.

Íslensk stjórnvöld munu tilkynna um afléttingaráætlun á föstudag eins og fram kom í fréttum í gær. Aðspurð sögðu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra að ekki væri enn búið að ákveða hvað fælist í þeirri áætlun en þau fullyrtu um að „bjartir tímar væru framundan“.

Covid-19 ekki lengur samfélagsvá

Hjá nágrönnum okkar í Danmörku verður því faraldrinum mögulega lokið frá og með mánudegi, að minnsta kosti ef litið er til samkomutakmarkana. Líklegast er að áfram verði þó farið fram á að fólk framvísi neikvæðu kórónuveiruprófi við komuna til landsins.

„Þótt við séum með háar smittölur þá eru ekki margir á gjörgæslu eða í öndunarvél. Og meðal eldri borgara á hjúkrunarheimilum eru ekki margir alvarlega veikir. Frá sjónarhorni sérfræðings í heilbrigðismálum get ég ekki séð að nein stórvægileg vandamál steðji að,“ sagði Allan Randrup Thomsen, prófessor í veirufræði við Háskólann í Kaupmannahöfn, við danska ríkisútvarpið.

Hann segir þó að hann vildi heldur sjá varfærnari skref tekin í átt að afléttingum í stað þess að fallið yrði frá þeim hægt og bítandi. Þannig segir hann að ákjósanlegast sé að bíða með opnun næturlífsins og þau svið menningarlífs þar sem mikil nálægð er á milli fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert