Bandaríska sendiráðið í Kænugarði hvatti í dag bandaríska ríkisborgara í Úkraínu til að íhuga að yfirgefa landið.
Þetta segir í yfirlýsingu frá sendiráðinu, en sífellt verður ljósara að innrás rússneska hersins er yfirvofandi.
Varað er við því að öryggisástandið geti versnað með skömmum fyrirvara.
Stjórnvöld í Kænugarði og Vesturlönd hafa sakað Rússland um að safna saman rúmlega hundrað þúsund hermönnum við landamæri Úkraínu, til að búa þá undir mögulega innrás.
„Ég hef ekki hugmynd um hvort hann sé búinn að taka endanlega ákvörðun, en við sjáum vissulega öll merki þess að hann muni beita hernaðarvaldi einhvern tíma kannski frá líðandi stundu og fram í miðjan febrúar,“ sagði aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Wendy Sherman, í erindi sínu á ráðstefnu fyrr í dag, og vísaði þar til Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.