Moderna hefur klíníska rannsókn á Ómíkron-bóluefni

Alls munu 600 fullorðnir einstaklingar taka þátt í tilraun fyrirtækisins.
Alls munu 600 fullorðnir einstaklingar taka þátt í tilraun fyrirtækisins. AFP

Bandaríska líftæknifyrirtækið Moderna tilkynnti í gær að það hefði hafið klínískar rannsóknir á örvunarskammti af bóluefni sem er sérstaklega hannaður til að berjast gegn Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar.

Alls munu 600 fullorðnir einstaklingar taka þátt í tilraun fyrirtækisins. Helmingur þeirra mun þegar hafa fengið tvo skammta af bóluefni Moderna gegn Covid-19 fyrir að minnsta kosti sex mánuðum og hinn helmingurinn mun hafa fengið þrjá skammta af bóluefninu.

Rannsakað sem bæði þriðji og fjórði skammtur

Örvunarbóluefnið, sem beinist sérstaklega að Ómíkron, verður því rannsakað sem bæði þriðji og fjórði skammtur.

„Við erum fullvissuð um mótefnaþol gegn Ómíkron eftir sex mánuði frá örvunarskömmtum af núverandi bóluefni,“ sagði Stephane Bancel, framkvæmdastjóri Moderna, í yfirlýsingunni.

„Miðað við langtímaógnina sem stafar af Ómíkron erum við engu að síður að efla bóluefnið gegn Ómíkron-afbrigðinu, með sérstökum Ómíkron-örvunarskammti, og við erum ánægð með að vera að hefja þennan hluta 2. stigs rannsóknar okkar.“

Yfirlýsing Moderna kom degi eftir að keppinautar fyrirtækisins, Pfizer og BioNTech, gáfu út að þeir hefðu byrjað að skrá sig í klíníska rannsókn á Ómíkron-sértæku bóluefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert