Lögregla vill takmarka birtingu upplýsinga

Johnson hefur staðfastlega neitað því að hafa brotið sóttvarnareglur.
Johnson hefur staðfastlega neitað því að hafa brotið sóttvarnareglur. AFP

Lundúnalögreglan sem rannsakar nú hugsanleg brot á sóttvarnareglum við veisluhöld í Downingstræti 10, hefur farið þess á leit við Sue Gray, sérstakan saksóknara, að hún takmarki þær upplýsingar sem gerðar verðar opinberar í skýrslu hennar um málið. BBC greinir frá.

Talið var að Gray myndi skila niðurstöðum rannsóknar sinnar á veisluhöldunum í þessari viku, en gera má ráð fyrir að það tefjist eitthvað vegna rannsóknar lögreglunnar. Lögreglan tekur þó fyrir að reynt hafi verið að tefja fyrir birtingu skýrslu Gray. Það hafi einfaldlega verið farið þess á leit við embætti hennar að ákveðin smáatriði yrðu ekki gerð opinber meðan á rannsókn lögreglunnar stendur, til að koma í veg fyrir hlutdrægni.

Ekki krafist takamarkana á öðrum upplýsingum

Cressida Dick lögreglustjóri tilkynnti það á þriðjudag að lögreglan hefði hafið sína eigin rannsókn á hugsanlegum brotum á sóttvarnareglum í Downingstræti 10. En í kjölfarið skapaðist ákveðin óvissa um hvað væri hægt að birta í skýrslu Gray.

Í tilkynningu sem Lundúnalögreglan sendi frá sér í dag segir að ekki hafið verið krafist þess að birtingu skýrslunnar yrði frestað. Þá hafi ekki verið farið fram á neinar takmarkanir á birtingum upplýsinga um þær veislur sem lögreglan er ekki með til rannsóknar. 

Ekki hefur verið greint frá því hve margar af þeim veislum sem Gray hefur verið með til rannsóknar, lögreglan ákvað að hefja sína eigin rannsókn á.

Fjölmiðlar hafa hins vegar greint frá því að 17 veislur hafi verið haldnar í byggingum ríkisstjórnarinnar meðan harðar samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar voru í gildi. Gray hefur ekki gefið upp hve margar eru til rannsóknar.

Vitað um tvær veislur sem rannsakaðar eru

Það hefur þó verið staðfest að veisla þar sem gestir áttu að mæta með sitt eigið áfengi, sem haldin var í garði Downingstrætis 10 í maí 2020, er til rannsóknar, ásamt afmælisveislu Boris Johnson forsætisráðherra í júní sama ár. Á þeim tíma var útgöngubann í gildi í Bretlandi og aðeins sex máttu koma saman utandyra. Johnson mætti í báðar veislurnar.

Forsætisráðherrann hefur staðfastlega haldið því fram að hann telji sig ekki hafa brotið sóttvarnareglur með því að fara í veislurnar. Í fyrra tilfellinu hafi hann talið að um vinnutengdan viðburð hafi verið að ræða.

Johnson hefur fengið á sig mikla gagnrýni vegna málsins og þingmenn hans eigin flokks eru meðal þeirra sem farið hafa fram á afsögn hans vegna þess. Forsætisráðherrann hefur hins vegar beðið fólk um að anda rólega og bíða með dómhörkuna þangað til skýrsla Gray hefur verið birt.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka