„Nara Walker: Ástralska konan sem kærir Ísland“ hljómar fyrirsögn The Guradian um mál Walker sem hlaut 18 mánaða dóm hér á landi árið 2017 fyrir að bíta hluta úr tungu eiginmanns síns.
Árið 2019 kærði Walker ásamt átta öðrum konum íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Walker hefur haldið því fram frá fyrsta degi að um sjálfsvörn hafi verið að ræða og telur hún yfirvöld ekki hafa tekið mark á frásögn hennar.
Konurnar níu sem kæra íslenska ríkið lýsa allar sameiginlegri reynslu þar sem þær sögðust hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi eða kynferðislegri áreitni en saksóknari eða lögregla látið málið niður falla.
Mannréttindadómstólinn bíður nú eftir viðbrögðum frá íslenska ríkinu við kvörtunum Walker en helstu umkvörtunarefni hennar eru að hún hafi ekki notið réttarverndar sem fórnarlamb heimilisofbeldis þar sem forsaga málsins hafi ekki verið skoðuð og því ekki fallist á að um sjálfsvörn hafi verið að ræða.
Þá hafi hún verið álitin sek, en ekki saklaus uns sekt hennar hafi verið sönnuð og ekki verið kynnt réttarstaða sín á tilhlýðilegan máta. Auk þess hafi meðferð hennar verið vanvirðandi, sem meðal annars hafi lýst sér í því að henni hafi verið meinað að leita sér læknisaðstoðar vegna áverka sina.
Þá hafi hún mætt mismunun með framangreindri meðferð, sem lýsir sér meðal annars í því að dómur hennar - erlendrar konu - sé þyngri en dómafordæmi eru um í sambærilegum málum.
Íslenska ríkið þarf að skila viðbrögðum sínum fyrir miðjan febrúar. Ef Walker vinnur málið gæti hún átt rétt á skaðabótum.
Í viðtalinu við The Guardian lýsir Walker handtökunni. Meðal annars segir hún að það hafi tekið hana meira en mánuð eftir að hún var handtekin að átta sig á því að hún var til rannsóknar, en ekki eiginmaður hennar.
Á meðan að málsmeðferðin stóð yfir bjó Walker í kvennaathvarfi áður en hún hlaut 18 mánaða fangelsisdóm.
Walker segir að tíminn í fangelsinu á Hólmsheiði hafi verið einmanalegur en að hún hafi skapað mikla list.
Hún býr nú í Darwin-borg í Ástralíu. „Stundum líður mér mjög vel... en svo koma stundirnar þar sem mér líður hræðilega og ég sé engan tilgang. En jafnvel á þeim tímum minni ég sjálfa mig á að þessu mun ljúka.“