Rauðglóandi í kórónusímtölum

Síminn þagnar ekki hjá vátryggingafélaginu If í Noregi og segir …
Síminn þagnar ekki hjá vátryggingafélaginu If í Noregi og segir upplýsingafulltrúi þar álagið eins og í góðum júlímánuði þar sem Norðmenn á sólarströndum lenda í hverjum kórónuskakkaföllunum á fætur öðrum. Ljósmynd/Ferðaskrifstofan Ving

„Þetta er ekki eðlilegt í janúar. Síminn hjá okkur er rauðglóandi og álagið eins og yfir hásumarfrístímann,“ segir Andreas Handeland, upplýsingafulltrúi Noregsdeildar finnsk-sænska vátryggingafyrirtækisins If, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Til umræðu eru 3.000 símtöl og 4.000 skaðabótamál á tæpum mánuði, frá nýliðnum áramótum, sem að yfirgnæfandi meirihluta snúast um Norðmenn í kórónuveiruvandræðum á fjarlægum sólarströndum. „Við erum með þrefalt fleiri afpöntunarmál en alla jafna og það er eins og allir séu smitaðir af kórónuveirunni,“ heldur upplýsingafulltrúinn áfram.

Málin eru af flestum toga, fólk veikist fyrir brottför í fríið, veikist í fríinu eða lendir í sóttkví úti í heimi og kemst ekki heim á tilsettum tíma. „Fjöldi viðskiptavina okkar fór í jóla- og nýársfrí og er ekki kominn heim enn þá vegna sóttkvía og seinkana,“ segir Handeland og reiknar ekki með rólegri dögum fram undan þar sem ferðaþorsti Norðmanna eftir hremmingar síðustu tveggja ára virðist nú óslökkvandi.

Margir bíða fram á síðustu stundu

Það staðfestir Beatriz Rivera sem hefur orð fyrir ferðaskrifstofunni Apollo þar sem salan rauk upp um 40 prósent milli vikna, í síðustu viku miðað við vikuna þar áður, og kaupa viðskiptavinir þá jöfnum höndum sumarferðir sem ferðir í febrúarmánuði, er nú hefur senn göngu sína. „Þótt okkur sé fullkunnugt um að margir bíða nú fram á síðustu stundu með að panta, er engum blöðum um það að fletta að æ fleiri eru teknir til við að skipuleggja fríið sitt í ár,“ segir Rivera.

Norsk stjórnvöld, þar á meðal utanríkisráðuneytið, brýna fyrir Norðmönnum á fjölda vefsíðna að renna ekki blint í sjóinn heldur kynna sér faraldursástand og reglur í gildi á áfangastöðum sem ætlunin sé að heimsækja, og ekki síður þær reglur sem gilda í Noregi við heimkomu frá viðkomandi landi.

Hjá fjölmiðlavakt norska utanríkisráðuneytisins fást þær upplýsingar að ráðuneytið hvetji alla, sem á faraldsfæti eru, til að setja sig vel inn í reglur og ráðleggingar. „Mörg lönd hafa tekið upp strangar heimsóknatakmarkanir og sóttvarnaráðstafanir vegna Ómíkron-afbrigðisins. Sá sem ætlar í ferðalag skyldi fylgjast grannt með ferðaupplýsingum ráðuneytisins og nýjum fréttum af faraldrinum. Eins ætti að fylgja ráðum og upplýsingum yfirvalda þess lands sem fólk er statt í. Hver og einn ber ábyrgð á eigin öryggi á ferðalagi,“ segir í skriflegu svari fjölmiðlavaktarinnar til NRK.

Ekki nóg að hætta við

Vinsælustu áfangastaðir sólþyrstra Norðmanna um þessar mundir eru, í þessari röð, Gran Canaria, Krít, Tenerife, Mallorca og Rhodos. Handeland hjá If bendir á að ferðatryggingar fyrirtækisins nái yfir kostnað vegna ferðatafa, veikindi á ferðalaginu og sóttkví að undirlagi til þess bærra yfirvalda. „Svo ef maður veikist eða er í námunda við einhvern sem veikist og er gert að sæta sóttkví á grundvelli þess bætir ferðatryggingin útgjöld sem koma til aukalega vegna þessa og vegna nýs flugfars heim.“

Eins bendir hann á að tryggingin bæti ekki allt sem tengist kórónuveirunni fortakslaust. Þannig bæti hún ekki kostnað sem við bætist vegna sóttkvíar sem ferðalangur mátti vita að biði hans á áfangastað eða við heimkomu og heldur ekki ferð sem hætt er við er skyndilega syrtir í álinn í kórónumálum á áfangastað. Viðkomandi þarf sjálfur að veikjast fyrir brottför til að eiga von um bótafé úr sjóðum tryggingafélagsins.

NRK

NRKII (flykkjast í fríið)

NRKIII („þess vegna er maður í vinnu“)

TV2

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert