Mikið fjárhagslegt tjón vegna lokana

Rafmagnsveitan KEGOC tók þá ákvörðun að draga úr framboði til …
Rafmagnsveitan KEGOC tók þá ákvörðun að draga úr framboði til námuverkamanna eftir að milljónir urðu fyrir áhrifum rafmagnsleysis í þremur löndum í Mið-Asíu í síðustu viku. AFP

Þann 17. janúar var lokað fyrir rafmagn á námustað rafmyntarinnar Bitcoin í Kasakstan, sem er annar stærsti námustaður rafmyntarinnar.

Ríkisrafmagnsveitan þar í landi, KEGOC, tók þá ákvörðun að draga úr rafmagnsframboði til námunnar eftir að milljónir urðu fyrir áhrifum rafmagnsleysis í þremur löndum í Mið-Asíu í síðustu viku.

Bitcoins eru búnir til með ferli sem kallast „námuvinnsla“, það felur í sér að tölvur leysa erfið stærðfræðidæmi með 64 stafa lausn. Í hvert sinn sem nýtt stærðfræðivandamál er leyst er nýtt Bitcoin framleitt. Sumir búa til öflugar tölvur í þeim eina tilgangi að búa til Bitcoins, sem getur krafist mikillar rafmagnsorku.

Eigendur Bitcoin hafa sakað rafmagnsveituna um það að að kenna námunum um aflgjafavandamálið. Áætlað tap vegna óvirkninnar nemur um einni milljón bandaríkjadala, eða rúmum 129 milljónum íslenskra króna, á hverjum degi á meðan á lokuninni stóð.

Vandamálið stafi ekki af námunum

Sergey Putra, varaforseti Bálkakeðju- og gagnaversiðnaðarsamtaka Kasakstan (e. National Association of Blockchain and Data Centers Industry in Kazakhstan), sagði við ríkismiðil í Kasakstan, Khabar, að vandamálið stafi ekki af rafmagnsnotkun námanna, þar sem tækin séu ávallt með stöðuga orkunotkun. Hann bætir við að rafmagnsnotkun námanna sé einungis um sjö prósent af allri rafmagnsorku notkun í Kasakstan.

Þó svo að rafmagn sé nú að mestu komið aftur á hefur orðið mikið fjárhagslegt tjón vegna lokunarinnar og vilja umsjónarmenn námanna meina að í hvert sinn sem að vandamál koma upp í raforkukerfi landsins bendi ríkisrafmagnsveitan á námuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert