Lítill hluti þeirra einstaklinga sem hafa lengi verið að glíma við eftirköst Covid-sýkingar gæti verið með skaða í lungum vegna veirunnar, samkvæmt niðurstöðum lítillar frumrannsóknar sem framkvæmd var í Bretlandi.
Þetta kemur fram á BBC.
Í rannsókninni voru 11 einstaklingar sérstaklega skoðaðir sem áttu það sameiginlegt að hafa ekki lagst inn á spítala þegar þeir veiktust fyrst af kórónuveirunni. Þeir aftur á móti höfðu lengi verið að glíma við mikla mæði í kjölfar veikindanna.
Rannsakendur telja að niðurstöðurnar geti skýrt hvers vegna svo margir upplifa mæði meðal þeirra sem glíma lengi við eftirköst Covid-19. Aftur á móti er tekið fram að mæði getur orsakast af mörgum þáttum og getur oft verið flókið að útskýra.
Rannsóknin byggir á fyrri rannsóknum sem tók til einstaklinga sem höfðu verið lögð á spítala vegna Covid-19. Stærri rannsókn er nú í undirbúningi til að staðfesta þessar fyrstu niðurstöður.
Í rannsókninni voru 36 einstaklingar skoðaðir sem hægt var að skipta í þrjá hópa, 11 einstaklingar sem upplifðu mikla mæði í kjölfar kórónuveirusýkingar en höfðu ekki lagst inn á spítala vegna Covid-19, 12 einstaklingar sem voru lagðir inn á spítala vegna Covid-19 en upplifðu ekki eftirköst sjúkdómsins og 13 heilbrigðir einstaklingar.
Voru einstaklingarnir látnir anda að sér xenon-gasi á meðan lungu þeirra voru skoðuð með segulómunartæki. Voru niðurstöðurnar síðan bornar saman milli hópa.
Í samanburðinum kom fram að virkni í lungum þeirra sem glímdu við eftirköst Covid-19 virtist ekki vera jafn mikil og meðal heilbrigðu einstaklinganna. Birtust einhver frávik á segulómunarmyndum þeirra.
Þeir sem voru lagðir inn á spítala virtust einnig vera með einhver merki um lélegri virkni.
„Þessi rannsókn er mikilvæg og ég vona að hún muni koma til með að varpa betur ljósi á þetta viðfangsefni,“ sagði dr. Emily Fraser lungnasérfræðingur um rannsóknina.
„Það er mjög mikilvægt að fólk viti að endurhæfing og öndunarþjálfun geta reynst hjálplegar,“ bætti hún við.