Stjórnvöld í Norður-Kóreu staðfestu í morgun að Hwasong-12-flugskeyti hefði verið skotið frá landinu í gær áður en það lenti í Japanshafi. Hafa þarlend stjórnvöld ekki gert tilraun með jafnöflugt vopn í fimm ár.
Um er að ræða sjöunda eldflaugaskotið í janúar en Norður-Kórea hefur aldrei skotið upp jafn mörgum flaugum í einum mánuði.
Japan, Suður-Kórea og Bandaríkin hafa öll fordæmt skotið og hefur forseti Suður-Kóreu, Moon Jae-in, sérstakar áhyggjur af auknum tilraunum nágranna sinna í norðri.
Norðurkóreski ríkisfjölmiðillinn segir í sinni umfjöllun að tilraun gærdagsins staðfesti nákvæmni og öryggi Hwasong-12-flugskeytisins.
Tímasetningin þykir einnig vera merkileg en tilraunirnar koma rétt fyrir Vetrarólympíuleikana í Kína og fyrir forsetakosningarnar í Suður-Kóreu í mars.