Óléttur fréttamaður þurfti að biðja talíbana um aðstoð

Bellis á vettvangi í Afganistan.
Bellis á vettvangi í Afganistan. Ljósmynd/Instagram-síða Charlotte Bellis

Stjórnvöld í Nýja-Sjáland segja að þrátt fyrir að landamæri landsins séu lokuð eigi að vera undanþágur frá lokunum. Nýsjálenska blaðakonan Charlotte Bellis, sem er ólétt, segir að hún hafi þurft að biðja talíbana um aðstoð eftir að hún komst ekki heim á leið.

Chris Hipkins, ráðherra Covid-viðbragðsmá­la í Nýja-Sjálandi, sagði að það væri pláss fyrir fólk þar sem aðstæður væru sérstakar, líkt og í tilfelli Bellis.

Bellis greindi frá því í liðinni viku að ríkisstjórn Nýja-Sjálands hefði hafnað beiðni hennar um að koma til landsins til þess að fæða barn sitt þar. 

Stjórnvöld leyfa íbúum landsins að koma þangað en eingöngu ef fólk dvelur í tíu daga á sóttkvíarhótelum við komuna.

Bellis líkti því við þegar hún spurði talíbana hvort hún, ógift og ólétt kona, væri velkomin til Afganistan.

Ónefndur talíbani sagði henni að það yrði ekki vandamál en hún og kærasti hennar, belgískur ljósmyndari, ættu einfaldlega að segja fólk að þau væru gift. Hún sagði það óneitanlega skjóta skökku við að Talíbanar, sem frægir eru fyrir að virða réttindi kvenna að vettugi, bjóði henni betri aðstoð en heimalandið.

Talíbanar komi öðruvísi fram við íbúa annarra landa

Í frétt BBC kemur fram að ekki sé ljóst hvað verði um ógiftar, óléttar konur í Afganistan. Hins vegar hafi borist fregnir af því að einstæðar afganskar mæður séu áreittar og þvingaðar til að gefa börn sín frá sér.

Hipkins sagði að strangar landamærareglur hefðu reynst vel á Nýja-Sjálandi en bætti því við að Bellis hefði verið boðið að sækja aftur um neyðarlandvistarleyfi.

Sjálf segir Bellis að henni hafi verið boðið landvistarleyfi í öðru, ónefndu landi.

Mannréttindahópar hafa gagnrýnt frásögn Bellis og segja hana lýsandi dæmi um hvernig Talíbanar koma öðruvísi fram við þá sem ekki eru frá Afganistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert