Tveir þýskir lögregluþjónar, 24 ára gömul kona og 29 ára gamall karlmaður, voru skotnir til bana snemma í morgun eftir að þeir stöðvuðu bifreið við reglubundið eftirlit í Kusel-héraði í Rínlöndum.
Lögreglan á svæðinu leitar nú ákaft þeirra sem ábyrgð bera á verknaðinum og biðlar til borgara að taka ekki puttaferðalanga upp í bíla sína.
Við leitum nú ákaft af brotamönnunum sem lagt hafa á flótta. Að minnsta kosti einn þeirra grunuðu er vopnaður, sagði í yfirlýsingu lögreglu.
Ekki fékkst nein lýsing á bifreiðinni sem stöðvuð var eða í hvaða átt hinir grunuðu flúðu.
Stéttarfélag lögreglumanna í Þýskalandi hefur lýst yfir mikilli sorg vegna andláts lögregluþjónanna tveggja og segir félagsmenn sína í áfalli.
Hugur okkar er með aðstandendum þeirra samstarfsmanna okkar sem létust vegna ofbeldisverks er þeir sinntu skyldustörfum, sagði formaður félagsins í yfirlýsingu.