Beiðni Breiviks um reynslulausn hafnað

Beiðni Anders Behrings Breiviks um reynslulausn var í dag hafnað.
Beiðni Anders Behrings Breiviks um reynslulausn var í dag hafnað. AFP

Norskur dómstóll hefur hafnað beiðni fjöldamorðingjans og nýnasistans Anders Behring Breivik um reynslulausn en rúmur áratugur er liðinn frá því að hann framdi fjöldamorðið í Útey þar sem hann myrti 77 manns.

í niðurstöðu dómstólsins kemur fram að enn stafi mikil hætta af Breivik og gæti hann tekið upp sömu hegðun og leiddi til hryðjuverkanna þann 22. júlí fyrir 10 árum.

Breivik hefur ekki sýnt eftirsjá vegna fjöldamorðanna og var því úrskurðurinn ekki óvæntur.

Hægt að framlengja dóminn

Breivik var dæmdur í 21 árs „forvaring“ árið 2012 fyrir að hafa myrt 77 einstaklinga í skipulögðum árásum. Fyrst með sprengju í Ósló, þar sem átta létust, og síðar sama dag í Útey þar sem hann skaut til bana 69 manns í sum­ar­búðum ungliðahreyf­ing­ar Verka­manna­flokks­ins. Voru flestir sem létust ungmenni.  

„Forvaring“-úrræðið er ólíkt hefðbundnum refsidóm þar sem hægt er að framlengja dóminn ótímabundið svo lengi sem dómarar telji samfélaginu stafa ógn af Breivik.

Við uppkvaðningu dómsins árið 2012 kom fram að að 10 árum liðnum gæti Breivik farið fram á reynslulausn, sem hann gerði í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert