Finnar stefna að því að aflétta öllum takmörkunum vegna kórónuveirunnar í febrúar. Sanna Marin, forsætisráðherra landsins, greindi frá þessu á fundi með fjölmiðlum í dag. Finnska ríkisútvarpið greinir frá.
Ríkisstjórnin mun funda á miðvikudag til að ræða frekari breytingar á aðgerðum, en í síðustu viku var tekin ákvörðun um að farið yrði í afléttingar strax í þessari viku.
Frá og með deginum í dag mega veitingastaðir hafa opið til klukkan 21, en barir og krár verða áfram að hætta áfengissölu klukkan 17 og þurfa að loka klukkan 18
Veitingastaðir mega áfram krefja viðskiptavini um framvísun kórónuveiruskírteinis, en það veitir þó ekki undanþágu frá reglum um áfengissölu eða opnunartíma. Þannig verður það áfram fram í miðjan febrúar.
Í dag má einnig opna líkamsræktarstöðvar og sundlaugar á Uusimaa svæðinu
Á landamærum Finnlands verður öllum takmörkunum aflétt í dag fyrir farþega frá Schengen-svæðinu, sem og öðrum löndum Evrópusambandsins sem ekki tilheyra Schengen.