Fjórtán daga bið eftir sturtu

Veikindaforföll við Háskólasjúkrahúsið í Norður-Noregi, UNN, í Tromsø hafa ekki …
Veikindaforföll við Háskólasjúkrahúsið í Norður-Noregi, UNN, í Tromsø hafa ekki verið meiri síðan í mars í fyrra og kveður starfsmannastjóri þar stjórnendur búa sig undir að stöðva hluta starfseminnar fari sem horfir. Ljósmynd/Háskólasjúkrahúsið í Norður-Noregi/UNN

Svo rammt kveður nú að manneklu vegna kórónuveirusmita víða um Noreg að heilbrigðisstarfsfólk þarf að forgangsraða verkefnum og umönnun skjólstæðinga sinna langt umfram það sem viðunandi getur talist. Að sögn Anne Grethe Olsen, fylkislæknis í Troms og Finnmark, bárust tilkynningar um mönnunarvandamál frá helmingi allra sveitarfélaga fylkisins í síðustu viku.

„Komi til neyðarástands getur það hitt sjúklinga og þá, sem aðstoðar þarfnast, illa fyrir. Þess vegna er áríðandi að okkur berist tilkynningar um slíkt svo við getum tekið málið upp við yfirvöld stefni í óefni,“ segir Olsen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Hún kveður smittoppnum líkast til enn ekki náð, smitum fjölgi hratt, en samkvæmt tölum norskra fjölmiðla upp úr miðnætti voru smit í Noregi síðasta sólarhringinn á undan 15.988 sem þó er nokkur fækkun frá því þau voru upp undir 25.000 þrjá sólarhringa í röð í síðustu viku. Nýjustu tölur vinnumálastofnunarinnar NAV sýna svart á hvítu að helmingur veikindaforfalla í síðustu viku var sprottinn af kórónuveirusýkingum og þar sé hlutfallið hæst meðal heilbrigðis- og umönnunarstarfsfólks.

Sturtan getur þurft að bíða

Ekki er ástandið skárra í Suður-Noregi en norður í Troms, Eva Irene Ødegaard, sviðsstjóri heimaþjónustu og endurhæfingar í Grimstad í Agder-fylki, kveður hennar fólk þurfa að setja þá verst settu í forgang, aðrir þurfi hreinlega að bíða – og ekki alltaf einn eða tvo daga.

„Vera má að skjólstæðingarnir fái styttri eftirlitsheimsóknir eða fresta þurfi aðstoð við athafnir á borð við uppvask eða sturtuferð. Sturtan getur þurft að bíða í nokkra daga, í versta falli í 14 daga þótt það séu reyndar undantekningartilvik,“ segir Ødegaard og dregur hvergi undan. Hennar starfsfólk meti í sífellu hverju mögulega megi fresta og reyni að finna tíma til að vinna upp verkefni á bið.

Mest vandræðin segir hún sprottin af sóttkví og smitum starfsfólksins. „Við megum heldur ekki gleyma því að við höfum mátt lifa með þessu býsna lengi og fólk er orðið lúið,“ segir sviðsstjórinn sem nú um stundir glímir við að fjórðungur starfsfólksins í þeim hópi, sem verst er ástatt um, er fjarverandi vegna veikinda.

Ekki færri í vinnu síðan í mars

Að sögn Gøril Bertheussen, starfsmannastjóra Háskólasjúkrahússins í Norður-Noregi, UNN, hafa viðlíka veikindaforföll ekki sést þar á bæ síðan í mars í fyrra. Eins og annars staðar snúist vinnudagarnir nú um að halda þeim starfsstöðvum gangandi sem engan veginn megi við messufalli, annað verði að mæta afgangi.

„Aukist veikindaforföllin enn neyðumst við til að stöðva hluta starfseminnar hér. Við erum ekki komin þangað enn sem komið er, en við búum okkur undir að til þess komi,“ segir Bertheussen.

NRK

VG (15.988 nýsmit)

Heimasíða NAV (54.700 ný veikindatilfelli)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert