Hiti færist í viðræður Rússa og Bandaríkjamanna

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna mun funda með Sergei Lavrov utanríkisráðherra …
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna mun funda með Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússa seinna í dag. AFP

Hiti hefur færst í viðræður Rússa og Bandaríkjamanna á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem hinir síðarnefndu kölluðu eftir í ljósi vígbúnaðar Rússa við landamæri Úkraínu, að því er fram kemur í frétt BBC.

Talið er að Rússar hafi komið fyrir um 100 þúsund hermönnum, skriðdrekum, skotvopnum og flugskeytum við landamæri Úkraínu. Bandaríkin og Bretland hafa varað Rússa við refsiaðgerðum ráðist þeir inn í Úkraínu.

Linda Thomas-Greenfield sendiherra Bandaríkjanna sagði færslu hermanna við landamærin þá umfangsmestu sem vitað væri um í Evrópu í áratugi.

Rússneskur sendiherra sakaði í kjölfarið Bandaríkjamenn um að ýta undir móðursýki og sagði þá vera að skipta sér af málefnum Rússlands með óviðeigandi hætti.

Skoða hvernig beita megi refsiaðgerðum

Liz Truss breski utanríkisráðherrann sagði það vera til skoðunar hvernig hægt væri að beita refsiaðgerðum gegn fleiri einstaklingum og viðskiptamönnum með tengsl við stjórnvöld í Kreml en nú þegar er heimild fyrir.

Bandarískur sendimaður hefur sagt að refsiaðgerðir Bandaríkjanna muni meðal annars fela í sér að einstaklingar í nánum tengslum við Kreml verði einangraðir frá alþjóðlega efnahagskerfinu.

Viðræður halda áfram í dag

Seinna í dag mun bandaríski utanríkisráðherrann Antony Blinken halda áfram viðræðum við Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands.

Bandaríkjamenn segjast nú hafa fengið skriflegt svar frá Rússum við tillögum þeirra sem miða að því hvernig draga megi úr krísunni við landamæri Úkraínu. Rússar kannast þó ekki við að hafa sent skriflegt svar og segja það enn í smíðum.

Fjöldi evrópskra leiðtoga eru nú á leið til Úkraínu í dag fyrir viðræður. Boris Johnson forsætisráðherra Breta þar á meðal en hann hefur lofað því að vinna með Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu til að finna diplómatíska lausn á ósættinu við Moskvu og koma í veg fyrir átök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert