Endalok faraldursins í augsýn í Evrópu

Grímuklætt fólk á ferð um neðanjarðarlestarkerfi Lundúna.
Grímuklætt fólk á ferð um neðanjarðarlestarkerfi Lundúna. AFP

Tveimur árum eftir að kórónuveiran braust út er útlit fyrir að Evrópa fari fljótlega inn í „langt tímabil rólegheita“ vegna aukinna bólusetninga, mildari Ómíkron-afbrigðis og vetrarloka.

Hans Kluge, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Evrópu, sagði að þessi hvíld frá veirunni væri „vopnahlé sem gæti fært okkur áframhaldandi frið“.

„Vegna þessarar stöðu er möguleikinn til staðar á löngu tímabili rólegheita,“ sagði hann við blaðamenn.

Hann bætti við að núna sé hægt að bregðast við nýjum afbrigðum veirunnar, jafnvel verri en Ómíkron, án þess að grípa þurfi til þeirra takmarkana sem áður voru settar til að stemma stigu við útbreiðslunni.

Hans Kluge.
Hans Kluge. AFP

Kluge tók þó fram að ekki væri þar með sagt að faraldrinum væri lokið en að núna sé tækifæri til að ná tökum á smitunum.

Vegna þess hversu smitandi Ómíkron er hefur greindum smitum fjölgað á umráðasvæði stofnunarinnar, sem samanstendur af 53 löndum, aðallega í Evrópu en einnig í Mið-Asíu.

Um 12 milljónir kórónuveirusmita greindust á svæðinu í síðustu viku, sem er það mesta frá upphafi faraldursins. En vegna færri innlagna á sjúkrahús hafa þó nokkur ríki Evrópu, þar á meðal Frakkland, Írland, Bretland og Danmörk ráðist í umtalsverðar eða algjörar afléttingar á takmörkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert