Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Vladimír Pútín Rússlandsforseti samþykktu á símafundi sínum síðdegis á miðvikudag að vinna að „friðsamlegri lausn“ á milli Úkraínu og Rússlands. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Downingstræti.
„Leiðtogarnir voru sammála um það að ef krísan myndi versna væri það engum í hag,“ segir í yfirlýsingunni. Þá segir einnig að Johnson hafi varað Pútín við því að hvers kyns innrás Rússa í Úkraínu yrði „hörmulegur misreikningur“.
Johnson lagði einnig áherslu á að Úkraína hefði fullan rétt á því að sækja um aðild að varnarbandalagi NATO ef ríkið vildi og að Kænugarður ætti að vera með í öllum viðræðum um deilu við Rússa.
Forsætisráðherrann heimsótti Kænugarð á þriðjudag og varaði við því eftir viðræður við Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, að veruleg ógn stafaði af rússneskum hersveitum við landamæri Úkraínu.
Um hundrað þúsund rússneskir hermenn eru nú staðsettir á landamærum Úkraínu og Rússlands. Johnson hefur áður sagt að hann muni senda hermenn til þess að liðsinna aðildarríkjum NATO ef Rússar gera innrás í Úkraínu.