Kínverjar taka undir afstöðu Rússa um andstöðu við frekari stækkun Atlantshafsbandalagsins (NATO). Þeir saka bandalagið um að aðhyllast hugmyndafræði kalda stríðsins.
Löndin tvö sendu frá sér yfirlýsingu um samkomulag þeirra, en Vladimír Pútín Rússlandsforseti er nú staddur í Kína vegna Vetrarólympíuleikanna.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, lagði áherslu á að Úkraína hefði fullan rétt á því að sækja um aðild að varnarbandalagi NATO ef ríkið vildi það. Þetta sagði hann á símafundi sínum síðdegis á miðvikudag við Pútín. Sömuleiðis sagði hann að Kænugarður ætti að vera með í öllum viðræðum vegna deilunnar við Rússa.
Pútín heldur því fram að vestræn ríki noti NATO til að grafa undan Rússlandi og hefur hann krafist þess að Úkraínu verði meinuð innganga í bandalagið.
Hann hefur sömuleiðis neitað að hann ætli að gera innrás í Úkraínu en um 100.000 rússneskir hermenn eru nú við landamærin að Úkraínu.