Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur vísað á bug fullyrðingum Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að hann hefði getað komið í veg fyrir að Joe Biden yrði forseti landsins á síðasta ári.
„Trump forseti hefur rangt fyrir sér. Ég hafði engan rétt til að snúa kosningunum við,“ sagði Pence á fundi í borginni Orlando í Flórída.
Búist er við því að Trump bjóði sig aftur fram í forsetakosningunum 2024 og að mögulega muni hann etja kappi við Pence sem fulltrúi Repúblikanaflokksins í kosningunum.
Trump, sem hefur ranglega haldið því fram að kosningunum hafi verið „stolið“, hélt því ítrekað fram í yfirlýsingu í síðustu viku, eins og hann hefur oft gert áður, að Pence „hefði getað snúið kosningunum við“.
Pence hefur áður sagt að hann hafði ekki völd til þess að hindra það að Biden yrði forseti en ummæli hans í gær eru þau afdráttarlausustu til þessa. Í ræðu sinni sagði hann að „það er engin hugmynd eins óamerísk og að einhver ein manneskja geti valið bandarískan forseta“.
Rebúblikanflokkurinn hefur ávítt tvo af helstu þingmönnum sínum fyrir að rannsaka óeirðirnar í bandaríska þinghúsinu. Þar ruddist æstur múgur inn og lést lögreglumaður eftir að hafa reynt að verja bygginguna.
Þingmennirnir tveir, Liz Cheney og Adam Kinzinger, eru einu repúblikanarnir sem eru í þingefnd sem rannsakar óeirðirnar, sem Trump hefur verið sakaður um að hafa ýtt undir.