Æfa sig gegn ógn í austri

Breskir hermenn um borð í skriðdreka á æfingunni.
Breskir hermenn um borð í skriðdreka á æfingunni. AFP

Brynvarinn skriðdreki rýfur ískalda þögnina þennan morguninn, þar sem hann skríður yfir snævi þakið landslagið. Í skóginum nærri heyrist þó ekki til hans. Aðeins brakið í fönninni, þar sem vopnaðir hermenn troða snjóinn undir fótum sér. Þeir fikra sig á milli trjánna og búa sig undir að ráðast á skriðdrekann og hans fylgdarlið.

Ógnin kemur eins og áður úr austri. Innrás Rússa í Úkraínu vofir yfir.

Og sú ógn hefur eflaust verið ofarlega í huga eistnesku hermannanna, sem hafa undanfarna daga tekið þátt í heræfingu í norðausturhluta landsins. Enda aðeins um hundrað kílómetrar til landamæranna að Rússlandi.

Heræfingar Atlantshafsbandalagsins á austurjaðri þess, sem haldnar eru árlega, vekja sérstaka athygli að þessu sinni í ljósi sívaxandi spennu á milli Rússlands og Vesturlanda.

Fleiri en hundrað þúsund rússneskir hermenn hafa safnast saman við landamæri Úkraínu undanfarnar vikur.

Stjórnvöld í Kremlinni í Moskvu krefjast þess meðal annars að erlendir hermenn Atlantshafsbandalagsins hverfi á brott frá Póllandi og Eystrasaltsríkjunum, en löndin fjögur tilheyra varnarbandalaginu.

Franskir hermenn á ferð um eistneskt skóglendi.
Franskir hermenn á ferð um eistneskt skóglendi. AFP

Reiðubúnir frá árinu 1991

Þó engin bein ógn steðji að landamærum Eistlands, og þeim 1,3 milljónum manna sem í landinu búa, þá bera margir þeirra ugg í brjósti vegna þess hvernig málum hefur undið fram.

Þeirri tilfinningu deila margir í Mið- og Austur-Evrópu.

„Við vitum vel hvað á sér nú stað í Úkraínu en við erum bara að haga okkur eðlilega. Við sjáum enga þörf á að herða okkar viðbúnað,“ segir eistneski liðsforinginn Andrus Merilo í samtali við fréttaritara AFP-fréttaveitunnar á staðnum.

„Við höfum verið reiðubúnir frá árinu 1991,“ bætir hann við og vísar þar til ársins þegar Eystrasaltsríkin unnu sjálfstæði sitt á ný, eftir hrun Sovétríkjanna.

„Við hræðumst ekki neina rússneska innrás. En við skiljum líka að nágranni okkar kann að vera herskár og við erum tilbúnir að verjast hvers kyns árás frá þeim.“

Franskur hermaður hleypir af byssu við æfingarnar.
Franskur hermaður hleypir af byssu við æfingarnar. AFP

Líftrygging fyrir Eistana

Í kjölfar þess að Rússar réðust yfir landamæri Úkraínu og innlimuðu Krímskagann árið 2014 sendi Atlantshafsbandalagið sérstakar fjölþjóðlegar hersveitir til Póllands og Eystrasaltsins.

„Við erum líftrygging fyrir Eistana,“ segir ofurstinn Eric Mauger frá Frakklandi. Hann stýrir þeim þrjú hundruð frönsku hermönnum sem hafa nú bækistöðvar við Finnlandsflóa í nafni NATO.

„Við erum ekki hér til að ögra Rússunum. Staðsetning okkar hér er fyrirbyggjandi, letjandi og ekki ágeng,“ bætir hann við og bendir á að hinum megin landamæranna hafi stjórnvöldum verið tilkynnt um fyrirhugaðar æfingar.

„En við erum reiðubúnir og getum haldið línunni á meðan við bíðum eftir liðsauka.“

Um 1.300 hermenn taka þátt í æfingunni að þessu sinni.
Um 1.300 hermenn taka þátt í æfingunni að þessu sinni. AFP

Evrópuríki senda hermenn austur

Í kjölfar vaxandi spennu vegna Úkraínu hafa Eystrasaltsríkin óskað eftir aukinni veru herliðs frá ríkjum Atlantshafsbandalagsins, í von um að hún muni fæla Rússa frá áformum um innrás.

Christine Lambrecht varnarmálaráðherra Þýskalands tilkynnti í dag að þaðan færu 350 hermenn til Litháens á næstu dögum.

Fyrir eru þegar í landinu 500 þýskir hermenn.

Bresk stjórnvöld tilkynntu sömuleiðis í dag að þau hygðust senda 350 hermenn að landamærum Póllands við Rússland, til að styrkja fremstu varnir gagnvart mögulegum árásum Rússa.

Heimamenn ganga fylktu liði og æfa hvernig bregðast eigi við …
Heimamenn ganga fylktu liði og æfa hvernig bregðast eigi við árás. AFP

Geti haldið aftur af innrás

Heræfing helgarinnar nefndist „Vetrarbúðir“ og tóku þátt í henni um 1.300 hermenn frá Eistlandi, Bretlandi og Frakklandi, við krefjandi aðstæður.

Sjá mátti eistneska hermenn fela sig í skógi og búa sig undir að sitja um nokkra skriðdreka sem voru á ferð um fannhvítt flatlendi skammt frá.

Einn þeirra bar svonefnda Javelin-flaug á öxlinni, en slíkar flaugar eru hannaðar til árása gegn skriðdrekum.

Í Eistlandi er vonast til að slík vopn geti haldið aftur af rússneskri innrás á meðan beðið er eftir að aðrar bandalagsþjóðir komi til varnar.

Vopnaðir Eistar á æfingunni í gær.
Vopnaðir Eistar á æfingunni í gær. AFP

Landslagið erfiðast

Undirofurstinn Simon Worth, sem stýrir herliði NATO í Eistlandi, segir markmið æfingarinnar hafa verið að „sanna getu okkar til að starfa við þær mest krefjandi aðstæður sem hermenn geta staðið frammi fyrir“.

Höfuðsmaðurinn Julien segir landslagið það erfiðasta.

„Eins og sjá má, þá er veðrið sérstaklega erfitt og landslagið er mýrarkennt, sem gerir okkur erfiðara fyrir að athafna okkur og gefur okkur hættu á að festast,“ segir hann.

„En þetta gerir herlið okkar sterkara, sem hefur á síðustu árum vanist því meira að starfa í Malí eða Níger. Svo að það er aukið gagn í því.“

Franskir hermenn berjast við kuldann á æfingunni.
Franskir hermenn berjast við kuldann á æfingunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert