Bandarískur alríkisdómari hefur dæmt sjóher landsins til að greiða yfir 230 milljónir dollara, eða tæpa 30 milljarða króna, í bætur til eftirlifenda og ættingja fórnarlamba skotárásar í Texas fyrir að greina ekki frá sakaskrá árásarmannsins.
26 manns voru drepnir og 22 til viðbótar særðust þegar Devin Patrick Kelley hóf skotríð í kirkju babtista í Sutherland Springs í Texas í nóvember 2017.
Kelley, sem var dæmdur glæpamaður, hafði gerst sekur um heimilisofbeldi, auk þess sem hann átti við geðræn vandamál að stríða.
Kelley framdi sjálfsvíg að lokinni árásinni, sem var sú versta í sögu Texas.
Fjölskyldur fórnarlambanna og eftirlifendur höfðuðu mál gegn bandarískum stjórnvöldum og sögðu að þau hefðu getað komið í veg fyrir að árásarmaðurinn kæmist yfir skotvopn á löglegan hátt.
Fram kemur í dóminum að stjórnvöld hafi ekki látið bandarísku alríkislögregluna, FBI, vita af sakaskrá mannsins og að stjórnvöld bæru því 60% ábyrgð í málinu.
Kelley hafði keypt skotvopn á löglegan hátt þrátt fyrir að dæmdir glæpamenn fái venjulega ekki að eiga byssur. Byssusalar eiga að leita í gagnagrunni stjórnvalda áður en viðskiptin ganga í gegn.
Árásarmanninum tókst að komast í gegnum þetta eftirlitskerfi vegna þess að bandaríski sjóherinn hafði ekki látið vita af tveimur dómum sem hann hlaut vegna heimilisofbeldis fimm árum áður.
Talsmaður sjóhersins sagði að málinu yrði áfrýjað, en byssulöggjöf í Texas er ein sú mildasta í Bandaríkjunum.