Páfinn biðst fyrirgefningar

Benedikt páfi árið 2015.
Benedikt páfi árið 2015. AFP

Benedikt páfi XVI hefur viðurkennt að mistök voru gerð við meðhöndlun nokkurra mála er vörðuðu kynferðisbrot gegn börnum þegar hann var erkibiskup í Munchen í Þýskalandi. BBC greinir frá. 

Í bréfi frá Vatíkaninu hefur fyrrum páfinn beðið fórnarlömb kynferðisbrotanna fyrirgefningar en neitaði að hafa sjálfur gert nokkuð rangt.

Niðurstaða rannsóknar á starfsemi kaþólsku kirkjunnar var sú að Benedikt páfi aðhafðist ekkert þegar hann var upplýstur um fjögur kynferðisbrot.

Bene­dikt páfi, sem var þá þekkt­ur sem Jos­ef Ratz­iniger, var erki­bisk­up frá 1977 til 1982.

Prestarnir fengu að starfa áfram innan kirkjunnar

Fram kemur í skýrslu frá þýskri lögmannsstofu að kynferðisbrot hafi átt sér stað meðan hann starfaði sem erkibiskup og að þeir prestar sem voru sakaðir um kynferðisbrot hafi fengið að starfa áfram innan kirkjunnar.

Frá blaðamannafundi um niðurstöður rannsóknarinnar. Núverandi erkibiskup Munchen og Freising, …
Frá blaðamannafundi um niðurstöður rannsóknarinnar. Núverandi erkibiskup Munchen og Freising, Reinhard Marx, er til vinstri á myndinni. AFP

Fyrrverandi páfinn hefur nú tjáð sig um skýrsluna: „Ég hef borið miklar skyldur í kaþólsku kirkjunni. Þeim mun meiri er sársauki minn vegna þeirrar misnotkunar og mistaka sem áttu sér stað á þessum mismunandi stöðum meðan ég gegndi starfinu.“

Þá sagðist hann tjá fórnarlömbum kynferðisofbeldisins djúpstæða skömm sína, djúpa sorg og einlæga beiðni um fyrirgefningu og bætti við að bráðum myndi hann standa frammi fyrir lokadómara lífs síns.

Sárt að hafa verið stimplaður sem lygari

Áður en skýrslan var birt í janúar hafði Benedikt páfi neitað því að hafa setið fund árið 1980 um kynferðisofbeldi þegar hann var erkibiskup í Munchen. En eftir að skýrslan var birt sagðist páfinn hafa mætt á fundinn og að mistök hefðu átt sér stað þegar fyrri yfirlýsingin var birt.

Benedikt páfi sagði í bréfinu að sér fyndist mjög sárt hvernig þessi mistök hefðu verið notuð til að efast um sannleiksgildi hans og jafnvel til að stimpla hann sem lygara.

Frans páfi og Benedikt páfi heilsast árið 2015. Benedikt varð …
Frans páfi og Benedikt páfi heilsast árið 2015. Benedikt varð árið 2013 fyrsti leiðtogi kaþólsku kirkj­unn­ar í rúm­lega 600 sem sagði af sér. AFP

Bene­dikt páfi er nú 94 ára gam­all. Hann sagði af sér embætti árið 2013 og varð þar með fyrsti leiðtogi kaþólsku kirkj­unn­ar í rúm­lega 600 ár sem seg­ir af sér. Var ástæða afsagnarinnar sögð vera þreyta. Síðan þá hefur hann lifað rólyndislífi í Vatíkaninu og er þekktur sem páfi emeritus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert