Gagnrýnir vítur miðstjórnarinnar

Mitch McConnell var gagnrýninn á ályktun miðstjórnarinnar.
Mitch McConnell var gagnrýninn á ályktun miðstjórnarinnar. AFP

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, gagnrýndi fyrr í kvöld miðstjórn Repúblikanaflokksins á landsvísu, RNC, fyrir vítur sem hún samþykkti á tvo þingmenn flokksins fyrir að taka þátt í rannsókn fulltrúadeildarinnar á árásinni á þinghúsið 6. janúar. 

Ályktun miðstjórnarinnar, sem samþykkt var á föstudaginn, beindist gegn þingmönnunum Liz Cheney og Adam Kitzinger, en þau sitja í rannsóknarnefnd fulltrúadeildarinnar og hafa bæði verið gagnrýnin á Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, fyrir þátt hans í aðdraganda árásarinnar. 

Sagði í ályktuninni að störf nefndarinnar væru „ofsóknir“ af hálfu demókrata sem beindust gagnvart venjulegum borgurum, sem hefðu tekið þátt í „lögmætri pólitískri umræðu.“ 

Stuðningsmenn Trumps takast á við lögreglu í nágrenni þinghússins 6. …
Stuðningsmenn Trumps takast á við lögreglu í nágrenni þinghússins 6. janúar. AFP

McConnell sagði hins vegar að árásin hefði verið „ofbeldisfull uppreisn, sem hafði það að markmiði að reyna að koma í veg fyrir friðsöm valdaskipti.“ Sagði McConnell að hann teldi að Ronna McDaniel, formaður miðstjórnar, myndi sitja áfram í því embætti, en sagði að hann teldi ekki að það væri hlutverk miðstjórnarinnar að taka fyrir meðlimi flokksins sem hefðu aðrar skoðanir en meirihluti flokksmanna. 

Aðrir öldungadeildarþingmenn repúblikana voru einnig gagnrýnir í gær á ályktun miðstjórnarinnar, en þeir óttast að of mikil áhersla á niðurstöður forsetakosninganna 2020 muni fæla óháða kjósendur frá flokknum í þingkosningum, sem fara munu fram í nóvember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert