Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, neitaði að fara í PCR-próf í Rússlandi fyrir fund sinn með Vladímír Pútín, Rússlandsforseta, á mánudag.
Eftir fundinn sagðist Macron hafa sannfært Pútín um að magna ekki Úkraínudeiluna upp á nýtt stig. Nokkurra athygli vakti þó hve mikil fjarlægð var á milli leiðtoganna á fundinum, en þeir sátu með fjögurra metra langt borð á milli sín.
Ekki er talið að fjarlægðin hafi verið að ástæðulausu en samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins neitaði Macron að fara í PCR-próf í Rússlandi af ótta við að Rússar hefðu þar af leiðandi erfðaefni hans undir höndum.
„Prófið krafðist heilbrigðisreglna sem voru óviðunandi og pössuðu ekki við áætlun franska leiðtogans,“ sagði franskur heimildarmaður við breska ríkisútvarpið.
Að sögn heimildarmannsins hafði Macron um tvennt að velja, að gangast undir PCR-próf í Rússlandi eða að hlíta ströngum fjarlægðarreglum.
„Við vissum vel að það þýddi ekkert handaband og þetta langa borð. En við gátum ekki sætt okkur við að þeir næðu DNA forsetans," sagði einn heimildarmannanna við fréttstofu Reuters. Macron hafði farið í PCR-próf í Frakklandi og þegar hann var kominn til Rússlands, sem framkvæmt var af lækni forsetans.
Kremlverjar staðfestu að Macron hefði verið haldið í fjarlægð frá rússneska leiðtoganum þar sem hann hefði neitað að gangast undir PCR-próf.
Dmitry Peskov, talsmaður Kreml, sagði að Rússar skildu afstöðu Frakka og hún hefði ekki haft áhrif á viðræðurnar.
Í gær tók Pútín á móti Kassym-Jomart Tokayev, forseta Kasakstan, aðeins þremur dögum eftir fund Pútíns og Macron.
Sátu þeir einungis með lítið kaffiborð sín á milli á fundinum og tókust í hendur og var því töluverður munur á fundunum tveimur.