Bandaríkin og bandalagsríki þeirra hafa komist yfir ný gögn, sem gefa til kynna að Rússland gæti hafið innrás í Úkraínu jafnvel áður en Vetrarólympíuleikunum í Peking lýkur. Frá þessu greinir fréttastofa CNN og vísar til fjölda heimildarmanna sem kunnugir séu málavöxtum.
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir innrás Rússa í Úkraínu geta hafist „hvenær sem er“, þar á meðal á meðan Ólympíuleikarnir standa yfir.
Á blaðamannafundi eftir samkomu fulltrúa Ástralíu, Indlands og Japan í Melbourne í dag, sagði ráðherrann að bandarísk stjórnvöld sæu enn „mjög uggvekjandi merki um stigmögnum af hálfu Rússa, þar á meðal söfnun nýs herliðs við úkraínsku landamærin“.
Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði ríkisborgara landsins við fyrr í dag og bað þá að yfirgefa Úkraínu hið fyrsta.
Áður en leikarnir í Peking hófust hafði aðstoðarutanríkisráðherrann Wendy Sherman sagt að þeir gætu haft áhrif á tímasetningu hugsanlegrar innrásar.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti fór til Peking og átti þar fund með kínverska forsetanum Xi Jinping fyrir setningu leikanna. Í kjölfarið gáfu þeir út ítarlegt samkomulag þar sem leiðtogarnir lýstu því yfir að samvinna þeirra ætti sér engin takmörk.
Ólympíuleikarnir voru settir 4. febrúar og þeim lýkur sunnudaginn 20. febrúar.