Ný gögn: Rússar gætu gert innrás á næstu dögum

Myndefni sem rússneska varnarmálaráðuneytið gaf út í dag, frá sameiginlegri …
Myndefni sem rússneska varnarmálaráðuneytið gaf út í dag, frá sameiginlegri æfingu með her Hvíta-Rússlands. AFP

Bandaríkin og bandalagsríki þeirra hafa komist yfir ný gögn, sem gefa til kynna að Rússland gæti hafið innrás í Úkraínu jafnvel áður en Vetrarólympíuleikunum í Peking lýkur. Frá þessu greinir fréttastofa CNN og vísar til fjölda heimildarmanna sem kunnugir séu málavöxtum.

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir innrás Rússa í Úkraínu geta hafist „hvenær sem er“, þar á meðal á meðan Ólympíuleikarnir standa yfir.

Á blaðamannafundi eftir samkomu fulltrúa Ástralíu, Indlands og Japan í Melbourne í dag, sagði ráðherrann að bandarísk stjórnvöld sæu enn „mjög uggvekjandi merki um stigmögnum af hálfu Rússa, þar á meðal söfnun nýs herliðs við úkraínsku landamærin“.

Frá sameiginlegri heræfingu Hvíta-Rússlands og Rússlands í dag.
Frá sameiginlegri heræfingu Hvíta-Rússlands og Rússlands í dag. AFP

Á hverri stundu

Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði ríkisborgara landsins við fyrr í dag og bað þá að yfirgefa Úkraínu hið fyrsta.

„Eins og við höfum sagt áður, þá erum við stödd í glugga þar sem innrás getur hafist á hverri stundu, og til að hafa það skýrt þá felur það einnig í sér Ólympíuleikana,“ sagði Blinken.

Áður en leikarnir í Peking hófust hafði aðstoðarutanríkisráðherrann Wendy Sherman sagt að þeir gætu haft áhrif á tímasetningu hugsanlegrar innrásar.

Úkraínskur hermaður í skotgröf á fremstu víglínu í austurhluta landsins.
Úkraínskur hermaður í skotgröf á fremstu víglínu í austurhluta landsins. AFP

Engin takmörk á samvinnu Rússlands og Kína

Vladimír Pútín Rússlandsforseti fór til Peking og átti þar fund með kínverska forsetanum Xi Jinping fyrir setningu leikanna. Í kjölfarið gáfu þeir út ítarlegt samkomulag þar sem leiðtogarnir lýstu því yfir að samvinna þeirra ætti sér engin takmörk.

Ólympíuleikarnir voru settir 4. febrúar og þeim lýkur sunnudaginn 20. febrúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert