Þúsundir Frakka flykkjast nú í bílalest til höfuðborgarinnar, Parísar, þar sem ætlunin er að hafa uppi mótmæli. Mótmælin bera yfirskriftina „Bílalest frelsisins“ (f. Le convoi de la liberté).
Ýmist er verið að mótmæla bólusetningum eða snarhækkun orkuverðs, sem geri láglaunafólki nánast ómögulegt að ná endum saman. Mótmælendur eru væntanlegir til Parísar fyrir lok dags en hafa margir þurft að keyra í nokkra daga.
Mótmælin sem staðið hafa yfir í Ottawa, höfuðborg Kanada, frá 29. janúar, höfðu áhrif á ákvörðun franskra mótmælenda, en yfirvöld í Parísarborg líst ekki á að sömu aðferðum verði beitt.
í Kanada hafa mótmælendur lagt stórum vörubílum sínum víðs vegar um götur borgarinnar, slegið upp tjöldum og hafa samgöngur því lamast.
Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakka, segir það í góðu lagi ef fólk mótmælir með hefðbundnum hætti, en ef reynt verður að loka fyrir umferð, þurfi að skerast í leikinn.
Lögreglan í París hefur fengið þau tilmæli að taka strangt á tilraunum til að loka fyrir umferð í borginni.
Reglulega, í gegnum heimsfaraldurinn, hafa verið háð mótmæli á laugardögum gegn bólusetningum. Búist er við því að mótmælendurnir sem nú eru á leið til borgarinnar, komi til með að bætast í þann hóp og hefja mótmælin þannig af fullum krafti á morgun.
Frakkland hefur verið að aflétta sóttvarnaaðgerðum upp á síðkastið, til að mynda með því að fella niður grímuskyldu við lok mánaðarins.