Bandaríkin sendu í gær af stað 1,9 milljónir skammta af bóluefni til Mósambík og fjögurra annarra landa í Afríku.
Mósambík fær 840 þúsund skammta af bóluefni frá Johnson & Johnson. Sambía fær 672 þúsund skammta. Kongó og Namibía 168 þúsund skammta hvort um sig og loks fara rúmlega 50 þúsund skammtar af Pfizer-bóluefni til Svasílands.
Bóluefnin fyrir Mósambík, Sambíu, Kongó og Namibíu eru gefin í samstarfi við sjóð sem ber heitið African Vaccine Acquisition Trust. En bóluefnið sem Svasíland fær er gefið í samstarfi við Covax, sem skýrir hvers vegna annar framleiðandi varð fyrir valinu.
Ríkisfulltrúi sem ræddi við fréttastofu AFP sagði gjafirnar endurspegla metnað forseta Bandaríkjanna, til að gera Bandaríkin að helsta „bóluefnaforðabúrinu“ í baráttunni við Covid-19.
Ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því að heimsfaraldri ljúki ekki fyrr en honum er lokið í heiminum öllum og því sé nauðsynlegt að styðja við bólusetningar í hinum efnaminni ríkjum.
Í janúar höfðu Bandaríkin gefið 400 milljón skammta af bóluefnum til 112 ríkja en markmiðið er að ná þeirri tölu upp í 1,1 milljarð skammta til allra ríkja heims sem þurfa á því að halda.