Átta Íslendingar í Úkraínu

Innrás Rússa í Úkraínu er talin yfirvofandi og fólk er …
Innrás Rússa í Úkraínu er talin yfirvofandi og fólk er Íslendingar eru hvattir til að koma sér burt. AFP

Að minnsta kosti átta íslenskir ríkisborgarar eru nú staddir í Úkraínu. Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmarsson upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Danska utanríkisráðuneytið hefur gefið út svokallaða rauða viðvörun þar sem Danir eru hvattir til að koma sér frá Úkraínu og alfarið er ráðið gegn ferðalögum til landsins, þar sem innrás Rússa þykir yfirvofandi.

Íslenska utanríkisráðuneytið gefur jafnan ekki út ferðaviðvaranir vegna ferðalaga til einstakra ríkja en bendir þess í stað á viðvaranir utanríkisráðuneyta Norðurlanda, sem í flestum tilfellum eru með starfsemi á viðkomandi stöðum.

Utanríkisráðuneytið hefur hins vegar hvatt íslenska ríkisborgara í Úkraínu til að láta borgaraþjónustuna vita af sér.

Íbúar í bænum Krasnohorivka hafa búist við stríði frá árinu …
Íbúar í bænum Krasnohorivka hafa búist við stríði frá árinu 2014. AFP

Staðan mjög alvarleg

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir stöðuna í Úkraínu grafalvarlega. Ekki hafi ríkt jafnmikil spenna milli Vesturlanda og Rússlands síðan í kalda stríðinu.

„Staðan er mjög alvarleg. Við vonum áfram að ekki komi til átaka en við búum okkur undir það versta og fylgjumst grannt með stöðu mála,“ segir Þórdís.

„Það er klárt hagsmunamál fyrir okkur að Vesturlönd og NATO sýni algjöra samstöðu í viðbrögðum og við erum ekkert undanskilin þar.“

Spurð hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir Rússland ef her landsins ræðst inn í Úkraínu bendir hún á að NATO-ríkin hafi þegar gefið það út, að slíkt myndi hafa miklar efnahagslegar afleiðingar fyrir Rússa.

Úkraníumenn sem búa við landamærin hafa margir hverjir flúið heimili …
Úkraníumenn sem búa við landamærin hafa margir hverjir flúið heimili sín og búa nú í neyðarhúsnæði. AFP

„NATO-ríkin hafa verið mjög skýr í sinni afstöðu öll sem eitt. Þá hafa ríki verið að auka viðveru sína á ákveðnum svæðum í Evrópu. Hins vegar er bein hernaðarleg íhlutun ekki á borðinu þar sem Úkraína er ekki hluti af NATO, og því virkjast ekki 5. grein NATO-samningsins, sem kveður á um að ef ráðist er á eitt ríki bandalagsins túlkist það sem árás á þau öll. Fimmta greinin virkjast ekki ef til þessa kemur, vegna þess að það er eðlismunur hvort ráðist er á Úkraínu eða NATO-lönd,“ segir Þórdís.

„Engu að síður væru hvers kyns hernaðarátök og landvinningastríð í Evrópu ákaflega mikið áhyggjuefni og ljóst að NATO gæti ekki setið aðgerðalaust hjá.“

Fréttin hefur verið uppfærð

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert