Símtal sem Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti áttu í dag, varði í eina klukkustund og tvær mínútur.
Hvíta húsið greinir frá þessu í tilkynningu. Símtalið hófst upp úr klukkan 16 að íslenskum tíma.
Söfnun herliðs Rússa við landamærin að Úkraínu mun hafa verið helsta umtalsefni símtalsins.
Í tilkynningu Hvíta hússins segir að Biden forseti hafi verið skýr um það, að ef Rússland reyni frekari innrás í Úkraínu, þá muni Bandaríkin ásamt bandamönnum þeirra svara á afgerandi hátt og láta Rússland gjalda fyrir, snögglega og tilfinnanlega.
Biden er þá sagður hafa ítrekað að frekari rússnesk innrás í Úkraínu myndi valda umfangsmiklum mannlegum þjáningum og grafa undan stöðu Rússlands á alþjóðavettvangi.
„Biden forseti var ómyrkur í máli við Pútín forseta, að á meðan Bandaríkin eru enn reiðubúin að taka þátt í viðræðum, í fullri samvinnu með bandamönnum okkar og félögum, þá erum við jafn reiðubúin fyrir aðrar sviðsmyndir,“ segir í tilkynningunni.
Háttsettur embættismaður, sem ekki vill láta nafns síns getið, tjáir AFP-fréttaveitunni að símtal leiðtoganna hafi ekki haft neinar grundvallarbreytingar í för með sér, á þeirri stöðu sem upp er komin vegna söfnunar herliðs Rússa við landamærin.
Fyrr í dag sagði rússneska varnarmálaráðuneytið að tundurspillir þess hefði orðið var við bandarískan kafbát nærri Kúríleyjum, innan landhelgi Rússlands, og neytt kafbátinn til að yfirgefa landhelgina.
Þegar kafbáturinn hafi hundsað kröfur Rússa um að yfirgefa svæðið, þá hafi áhöfn tundurspillisins „beitt viðeigandi ráðstöfunum“. Ekki var útskýrt nánar hvað átt væri við.
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa hvatt alla Bandaríkjamenn sem staddir eru í Úkraínu til að yfirgefa landið innan tveggja sólarhringa.
Fleiri ríki hafa gert slíkt hið sama. Þar á meðal Danir og Norðmenn og eru Íslendingar hvattir til að fylgjast með viðvörunum annarra Norðurlandaþjóða. Þá hafa Ástralir, Bretar, Lettar og Hollendingar einnig hvatt ríkisborgara sína til að fara frá Úkraínu.
Hollenska ríkisflugfélagið KLM hefur tilkynnt að það sé hætt flugferðum til Úkraínu að sinni, þar til annað verður ákveðið.
Ný gögn voru í gær sögð benda til þess að innrás gæti jafnvel hafist á meðan Vetrarólympíuleikarnir í Peking standa yfir, en þeim lýkur 20. febrúar.
Á blaðamannafundi í gær, sagði utanríkisráðherra Bandaríkjanna að stjórnvöld sæju enn „mjög uggvekjandi merki um stigmögnum af hálfu Rússa, þar á meðal söfnun nýs herliðs við úkraínsku landamærin“.