Bandaríkin sverja af sér landhelgisbrot

Bandarískur kafbátur á siglingu.
Bandarískur kafbátur á siglingu.

Bandarísk stjórnvöld segja ekkert hæft í þeirri fullyrðingu varnarmálaráðuneytis Rússlands fyrr í dag, að bandarískur kafbátur hefði verið hrakinn á brott úr landhelgi Rússa við Kúríleyjar í Kyrrahafi.

„Það er ekkert satt í fullyrðingum Rússa um aðgerðir á okkar vegum innan landhelgi þeirra,“ segir í yfirlýsingu frá bandaríska hernum.

Á valdi Rússa frá síðari heimsstyrjöld

Tengiliður varnarmála í bandaríska sendiráðinu í Moskvu var kallaður á fund í varnarmálaráðuneytinu þar í borg, í kjölfar meinta atviksins.

Kúríleyjar, sem liggja norður af stóru japönsku eyjunni Hokkaido, hafa verið á valdi Rússa frá því hermenn Sovétríkjanna lögðu hald á þær á síðustu dögum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Beitt viðeigandi ráðstöfunum

Í til­kynn­ing­unni frá rússneskum stjórnvöldum fyrr í dag sagði að tund­ur­spill­ir­inn Sja­posni­kov marskálk­ur hefði fundið banda­ríska kaf­bát­inn inn­an land­helg­inn­ar við Kúríleyj­ar.

Þegar kaf­bát­ur­inn hafi hundsað kröf­ur Rússa um að yf­ir­gefa svæðið, þá hafi áhöfn tund­ur­spill­is­ins „beitt viðeig­andi ráðstöf­un­um“. Ekki var út­skýrt nán­ar hvað átt væri við með því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert