Bandarísk stjórnvöld segja ekkert hæft í þeirri fullyrðingu varnarmálaráðuneytis Rússlands fyrr í dag, að bandarískur kafbátur hefði verið hrakinn á brott úr landhelgi Rússa við Kúríleyjar í Kyrrahafi.
„Það er ekkert satt í fullyrðingum Rússa um aðgerðir á okkar vegum innan landhelgi þeirra,“ segir í yfirlýsingu frá bandaríska hernum.
Tengiliður varnarmála í bandaríska sendiráðinu í Moskvu var kallaður á fund í varnarmálaráðuneytinu þar í borg, í kjölfar meinta atviksins.
Kúríleyjar, sem liggja norður af stóru japönsku eyjunni Hokkaido, hafa verið á valdi Rússa frá því hermenn Sovétríkjanna lögðu hald á þær á síðustu dögum síðari heimsstyrjaldarinnar.
Í tilkynningunni frá rússneskum stjórnvöldum fyrr í dag sagði að tundurspillirinn Sjaposnikov marskálkur hefði fundið bandaríska kafbátinn innan landhelginnar við Kúríleyjar.
Þegar kafbáturinn hafi hundsað kröfur Rússa um að yfirgefa svæðið, þá hafi áhöfn tundurspillisins „beitt viðeigandi ráðstöfunum“. Ekki var útskýrt nánar hvað átt væri við með því.