Bandaríkjamenn reyni að egna til átaka

Lavrov segir Bandaríkjamenn leiða áróðursherferð.
Lavrov segir Bandaríkjamenn leiða áróðursherferð. AFP

Sergei Lavrov, utanríkisáðherra Rússlands, sakar Bandaríkjamenn um að reyna að egna til átaka í Úkraínu. Þetta kom fram í samtali hans og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrr í dag. AFP-fréttastofan greinir frá.

Lavrov sagði að í gangi væri áróðursherferð, leidd af Bandaríkjunum og bandalagsþjóðum, um ágang Rússa gagnvart Úkraínu og yfirvofandi innrás. Með því væri verið að sækjast eftir átökum.

Blinken sagði að enn væri hægt að fara diplómatíska leið til að forðast átök, en það þýddi að Rússar þyrftu að stíga til baka og vera tilbúnir að eiga samtal á réttum forsendum.

Blinken segir enn hægt að forðast átök.
Blinken segir enn hægt að forðast átök. AFP

Forsetar ræða saman síðar í dag

Í gær varaði Blin­ken við því að inn­rás Rússa í Úkraínu, gæti haf­ist á næstu dög­um. Ný gögn bentu til þess að inn­rás gæti jafn­vel haf­ist á meðan Vetr­arólymp­íu­leik­arn­ir í Pek­ing stæðu yfir, en þeim lýk­ur 20. fe­brú­ar. 

Joe Biden, for­seti Banda­ríkj­anna, og Vla­dimir Pút­in, for­seti Rúss­lands, munu einnig ræða sam­an síðar í dag, ásamt Emanuel Macron, forseta Frakklands.

Margar þjóðir hvetja fólk til að yfirgefa Úkraínu

Fjölmargar þjóðir hafa hvatt ríkisborgara sína til að fara frá Úkraínu sem allra fyrst vegna mögulegrar innrásar. Bandaríkjamenn eru þar á meðal, en Danir, Norðmenn, Ástralir, Nýsjálendingar, Hollendingar og Þjóðverjar hafa gert það sama.

Átta Íslendingar eru staddir í Úkraínu og hefur íslenska utanríkisráðuneytið hvatt Íslendinga til að fylgjast með viðvörunum annarra Norðurlandaþjóða. Þá eru Íslendingar í Úkraínu hvattir til að láta borgaraþjónustuna vita af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert