Noregur steig í dag sitt síðasta skref til afléttinga, þegar Jonas Gahr Store tilkynnti um afléttingu nálægðarmarka og grímuskyldu.
Á blaðamannafundi sagði Store að metrinn væri á undanhaldi og ríkistjórnin myndi hætta að mæla með metra reglunni.
„Nú getum við farið að umgangast fólk eins og fyrir faraldurinn, kíkt á næturlífið, farið á menningarviðburði og svo framvegis“ sagði Store við blaðamenn.
Noregur aflétti nær öllum takmörkunum fyrr í mánuðinum á borð við samkomutakmarkanir, takmarkanir á áfengissölu og fjarvinnu.
Í dag var einnig gefið út að ekki sé lengur skylda að fara í fjögurra daga einangrun vegna kórónuveirusmits heldur aðeins mælt með því. Börn með öndunarfæra einkenni þurfa ekki að fara í veirupróf.
Store áréttaði þó að faraldrinum væri ekki lokið og ráðlagði óbólusettum og áhættuhópum að bera enn grímu og halda fjarlægð.
Heilbrigðisráðuneyti Noregs tilkynnti að toppnum á Ómíkron-bylgjunni væri ekki enn náð en það býst við að honum verði náð á næstu dögum.