Rússar staðfesta í dag að þeir séu farnir að senda heim hluta af sendiráðsstarfsfólki frá Úkraínu vegna ótta við aðgerðir af hálfu yfirvalda í Kænugarði eða annarra ríkja sem telja innrás Rússa í Úkraínu yfirvofandi. AFP-fréttastofan greinir frá.
Rússar hafa staðfastlega neitað því að ætla sér að ráðast inn í Úkraínu, en þrátt fyrir það hafa á annað hundrað þúsund rússneskir hermenn safnast saman við landamæri ríkjanna. Þá segja Bandaríkin að ný gögn sýni fram á að innrás gæti hafist á næstu dögum.
„Vegna ótta við mögulegar aðgerðir af hálfu yfirvalda í Kænugarði eða annarra landa, höfum við ákveðið að fækka í starfsliði rússneskra erindreka í Úkraínu,“ sagði Maria Zakharova, talskona rússneska utanríksiráðuneytisins, á blaðamannafundi.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Vladimir Pútín, forseti Rússlands, eiga símafund í dag, en Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að ný gögn bentu til þess að innrás gæti jafnvel hafist á meðan Vetrarólympíuleikarnir í Peking stæðu yfir, en þeim lýkur 20. febrúar.