Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu hefur boðið Joe Biden Bandaríkjaforseta í heimsókn til Kænugarðs. Forsetarnir tveir ræddust við í dag um Úkraínudeiluna en spennan magnast enn á landamærum Úkraínu og Rússlands.
„Ég er sannfærður um að heimsókn þín til Kænugarðs á næstu dögum gæti sent sterk skilaboð og hjálpað við að koma jafnvægi á ástandið,“ er haft eftir Selenskí en símtal þeirra varði í um 50 mínútur.
Ekkert var minnst á heimboðið til Kænugarðs í fréttatilkynningu frá Washington í dag.
„Leiðtogarnir tveir sammæltust um mikilvægi þess að fara diplómatíska leið vegna hernaðaraðgerða Rússlands á landamærum Úkraínu,“ sagði í tilkynningunni.